Ömurleg brúðkaup á franskri kvikmyndahátíð

Alliance française í Reykjavík, sendiráð Frakklands á Íslandi og Græna ljósið kynna Franska kvikmyndahátíð, sem verður haldin í 15. skipti dagana 23. janúar til 2. febrúar í Háskólabíói og 26. janúar til 1. febrúar í Borgarbíói á Akureyri.

Franska kvikmyndahátíðin er annar stærsti kvikmyndaviðburður á Íslandi, næst á eftir Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík. Hátíðin er líka fyrsti stóri menningaratburður ársins í Reykjavík og hana sækja að jafnaði um 10.000 gestir.

Á þessari kvikmyndahátíð verður lögð mikil áhersla á fjölbreytni, sem er meginþema myndanna, og þær eru frá ýmsum löndum en allar á frönsku. Þarna verða myndir sem hafa hlotið metaðsókn, myndir með eindregnum höfundareinkennum, myndir frá Frakklandi, Bandaríkjunum, Kanada og Fílabeinsströnd, mikið úrval þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

qu-est-ce-qu-on-a-fait-au-bon-dieu

Opnunarmynd hátíðarinnar verður Ömurleg brúðkaup (Qu’est-ce qu’on a fait au Bon Dieu?). Myndin hefur slegið í gegn um allan heim og dró til sín 12 miljónir áhorfenda í Frakklandi. Slíkur fjöldi hafði ekki sótt í kvikmyndahús frá því að Les Intouchables var sýnd. Myndin segir frá kaþólskum sómahjónum sem eiga fjórar dætur. Hjónin vonast til að dæturnar giftist vænum og kaþólskum piltum en það dofnar yfir þeim með hverjum nýjum tengdasyni. En kannski sá fjórði verði þeim að skapi… Þetta er gamanmynd um það hvernig ólíkur uppruni og ólík trú geta blandast saman í fjölskrúðugri fjölskyldu. Það eru kímni og umburðarlyndi sem einkenna myndina. Leikararnir Noom Diawara og Medi Sadoun verða heiðursgestir við opnun hátíðarinnar.

Önnur mynd, sem er að hljóta metaðsókn í Frakklandi þessa dagana, er Bélier-fjölskyldan (La famille Bélier). Ung sveitastúlka kemst að því að hún er með fágæta rödd. Hana langar að leggja fyrir sig söng en foreldrar hennar og bróðir eru heyrnarlaus og reiða sig á hana í daglegu lífi. Hvað getur hún tekið til bragðs? Franskir gagnrýnendur spá því að þetta verði mynd ársins 2015. Hvað heldur þú?

Aðrar myndir sem vert er að vekja athygli á eru Laurence hvernig sem er (Laurence Anyways) eftir ungan kanadískan snilling, Xavier Dolan, Lulu nakin (Lulu femme nue) eftir fransk-íslenska leikstjórann Sólveigu Anspach og Af öllum kröftum (De toutes nos forces) eftir Nils Tavernier með tónlist eftir Barða Jóhannesson. Í þessum þremur myndum er fjallað um hvernig við bregðumst við þeim sem skera sig úr, um stöðu kvenna og um fötlun. Þau Sólveig og Barði sitja fyrir svörum um myndirnar 23. og 24. janúar, eftir að lokið er sýningunum sem hefjast kl. 18.

Það eru tíu úrvalsmyndir sem boðið verður upp á á Frönsku kvikmyndahátíðinni 2015. Sýningartíma kvikmynda og nánari upplýsingar má finna á vefsíðu hátíðarinnar og hér á kvikmyndir.is

Stikk: