Náðu í appið
Bönnuð innan 12 ára

Captain America: The First Avenger 2011

Justwatch

Frumsýnd: 27. júlí 2011

When patriots become heroes

125 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 80% Critics
The Movies database einkunn 66
/100

Árið er 1942 og seinni heimsstyrjöldin geisar sem hæst. Hinn smávaxni og veiklulegi Steve Rogers hefur reynt hvorki meira né minna en fimm sinnum að komast í herinn til að berjast fyrir bandarísku þjóðina en verið hafnað í hvert einasta sinn. Þegar öll sund virðast lokuð opnast nýjar dyr fyrir Steve: að bjóða sig fram í leynilegt hátækniverkefni á vegum... Lesa meira

Árið er 1942 og seinni heimsstyrjöldin geisar sem hæst. Hinn smávaxni og veiklulegi Steve Rogers hefur reynt hvorki meira né minna en fimm sinnum að komast í herinn til að berjast fyrir bandarísku þjóðina en verið hafnað í hvert einasta sinn. Þegar öll sund virðast lokuð opnast nýjar dyr fyrir Steve: að bjóða sig fram í leynilegt hátækniverkefni á vegum hersins þar sem ekki er krafist sömu líkamlegu eiginleika. Það heitir Project: Rebirth, en þegar hann tekur þátt er honum breytt í ofurhermann og er fljótt kallaður Kafteinn Ameríka. Hann og félagi hans úr verkefninu, Bucky Barnes (Sebastian Stan), mynda illvígt teymi sem tekur að sér hættulegustu sérverkefnin í stríðinu, þar á meðal að reyna að ráða niðurlögum Red Skull, yfirmann vopnaþróunar á vegum Adolfs Hitler, en Red Skull hefur sín eigin áform um framgang stríðsins í sína þágu, og spilar þar töfrum gæddur hlutur að nafni Tesseract stórt hlutverk.... minna

Aðalleikarar

Sól og Sumargaman
Sól og Sumargaman

Íslendingar þekkja Captain America ekki jafn vel og Superman. Það var samt gefið að kvikmynd um hann myndi njóta vinsælda hérlendis eins og flestar sumarmyndir sem innihalda 3-D, tæknibrellur og vöðvastæltan karlmann. Það eru ekki jafn miklar kröfur til svona kvikmynda. Áhorfandinn vill aðallega að hún líti vel út (bæði leikarar og umhverfi) og að sagan sé nógu áhugaverð.

Sagan gerist í seinni heimsstyrjöldinni. Hins vegar er helsti andstæðingur Bandaríkjamannanna ekki Adolf Hitler heldur yfirmaður vopnaþróunar hjá honum, Red Skull sem Hugo Weaving túlkar. Hann óhlýðnast Hitler og skapar sinn eigin her að nafni Hydra. Að sjálfsögðu einbeitir sagan sér samt meira að aðalpersónunni og þróun hennar úr veikburða manni í ofurmenni.
Chris Evans leikur Captain America. Áhorfandinn á auðvelt með að tengja sig við hann þar sem hann byrjar á botninum og endar á toppnum. Hayley Atwell er mótleikkona ofurhetjunnar en samband þeirra er samt ekki þetta hefðbundna Hollywood samband þó að það komi nálægt því.

Það er eitthvað við uppbyggingu og hraða myndarinnar sem gerir hana óvenjulega en undirritaður getur ekki útskýrt hvernig. Hvort sem það er jákvætt eða neikvætt er matsatriði en myndin er alla vega ekki eins og blómkálssúpan sem maður fær alltaf hjá ömmu. Það er kannski meira af rjóma eða einhverju álíka. Ekki nóg til að áhorfandinn hunsi klisjurnar en samt nóg til að vekja áhuga.

Captain America: The First Avenger er líklega þess virði að fara á í bíó ef þú þekkir til ofurhetjunnar eða vilt sól og sumargaman. Annars eru fáar ástæður til að borga sig inn á hana.

Jóhann Pálmar
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Evans klikkar aldrei
Árið er aðeins meira en hálfnað þegar þessi texti er skrifaður og hafa hvorki meira né minna en fjórar ofurhetjumyndir verið sýndar í íslenskum bíóum (Captain America, Thor, The Green Horner og X-Men: First Class) og er ein önnur á leiðinni fljótlega (Green Lantern). Sjálfur hef ég ekki horft á allar upphitunarmyndirnar fyrir The Avengers sem kemur á næsta ári (The Incredible Hulk, Thor, Iron Man, Iron Man 2, og Captain America). Kaldhæðnislega er uppáhaldsmyndin mín af þessum sú sem auðveldast hefði getað orðið hallærisleg: Thor. Captain America: The First Avenger nær ekki einu sinni að vera mín næst uppáhalds ofurhetjumynd ársins. En samt sem áður mætti hún væntingum mínum og er bara frekar góð mynd og fínn endir á upphitunina fyrir The Avengers.

Ég sá fyrri myndina um Captain America (1990) fyrir einhverju síðar og eina sem ég man eftir var að aðalkarakterinn var óáhugaverður, búningurinn var hlægilegur og myndin sjálf er óminnug. Jafnvel þótt titillinn bendir til þess þá er myndin alls ekki að sýna að Bandaríkinn séu bestir. Karakterarnir úr myndinni eru ekki eingöngu frá því landi og myndin gerir talsvert grín að byrjunarútliti kafteinsins. Búningurinn sem hann fær í endanum virkar reyndar mjög vel, enda er ekki auðveld vinna að gera búning með þessu útliti ekki hallærislegan.

Flestir leikararnir standa sig vel, þó ekki margir séu minnugir. Tommy Lee Jones, Dominic Cooper, Stanely Tucci (sem er reyndar ekki mikið í myndinni) og Hayley Atwell sýna samt sem áður góðan lit og það er alltaf gaman að sjá í ofurhetjumynd þegar kvenmaður er meira í hasarnum heldur en Damsel in Distress (þarf maður að segja fleiri heldur en Mary Jane?) . En senuþjófur myndarinnar er auðvitað Chris Evans sem Captain America. Ég hef verið aðdáðandi leikarans síðan ég sá Not Another Teen Movie fyrir mörgum árum (sem er að mínu mati besta spoof mynd sem hefur orðið Movie í titlinum) og maðurinn nær alltaf að eigna sér þau atriði sem hann er í. Þetta er fyrsta myndin sem ég hef séð með honum þar sem hann í stærsta hlutverkinu og honum tókst það mjög vel. Karakterinn er skemmtilegur, stoltur og svo rosalega unglega þroskaður að það er erfitt að hafa ekki gaman af honum. Hann er stærsta ástæðan af hverju þessa mynd virkar og ég á eftir að hlakka til að sjá hann með hinum karakterunum í The Avengers, og þá sérstaklega með Chris Hemsworth, en Thor var alveg jafn skemmtilegur karakter og Captain America.

Mér hefði samt fundist betri hefði verið annað illmenni heldur en Red Skull. Ég hef ekki lesið myndasögurnar svo ég veit ekki hvaða önnur illmenni eru þar, en mér fannst hann ekki virka fullkomlega. Hugo Weaving stóð sig vel og fyrri hluta myndarinnar var karakterinn fínn (þrátt fyrir að vera rosalega týpískt illmenni) en útlitið hans sem Red Skull er ekkert svakalega gott. Ég átti frekar erfitt með að taka það alvarlega.

Hasaratriðin eru góð og tölvubrellurnar skila sínu. Brellurnar virkuðu mjög vel þegar andlitið hans Evans var sett á líkama annars sem er talsvert öðruvísi en hans eigins. Það kom betra en ég hélt að það mundi. Tónlistin passar fullkomlega við bandarísku þemu myndarinnar og lagið sem Alan Menken (sem samd flesta tónlistina og lögin í Disney myndum frá 10. áratugnum) kemur með í myndinni er æðislega grípandi og passar æðislega vel við atriðið sitt.

Myndin er aðeins of löng, en það er helst sjáanlegt í klæmaxi myndarinnar. Það hefði mátt minnka hann aðeins, sem og nokkur atriði í myndinni. Myndin fær solid sjöu hjá mér og góð meðmæli. Þrátt fyrir týpískt illmenni sem ég gat ekki tekið það alvarlega og myndin er of löng, þá bætist það með sínum mörgum kostum, og þá sérstaklega frá Evans.

7/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Vel heppnaður ofurkani
Sjálfstæða Marvel-stúdíóið tekur hér með seinasta skrefið í átt að stærstu ofurhetjumynd allra tíma eftir að hafa kitlað nördana inni í okkur síðan sumarið 2008. Augljóslega þegar þessi texti er skrifaður hefur hvorki undirritaður né nokkur annar hugmynd um hvernig afraksturinn mun koma út (það eru enn margir mánuðir til stefnu) en spennan í átt að ofurhetjusamkomunni sem ber heitið The Avengers er óneitanlega mikil. Og þetta kemur frá einhverjum sem var ekki einu sinni aðdáandi Iron Man-myndanna eða The Incredible Hulk. Sú mynd sem náði mest til mín var Thor, með sinni glæsilegu útlitshönnun, tvískipta tón og vægast sagt heillandi aðalleikara (smá "man crush" hérna megin víst). Í sterku öðru sæti kemur Captain America inn sem sú mynd sem gerði mig spenntari gagnvart því sem koma skal. Aldrei hefði ég búist við því að þær tvær Marvel-hetjur sem mér var mest sama um í æsku ættu eftir að verða traustustu Avengers-liðsmennirnir. Ekki móðgast, herra Downey.

Þó svo að þessar fimm Marvel-myndir séu í rauninni að byggja upp þennan einstaka nördagraut hjá Joss Whedon þá skiptir fyrst og fremst máli að myndirnar gangi upp sem sjálfstæðar einingar í stað þess að vera einungis uppstillingar, og flestum hefur tekist það. Captain America gerir það samt e.t.v. best vegna þess að sagan afmarkar sig í allt annað tímabil og notar "vísbendingarnar" (nærvera Howards Stark t.d.) sem góðgæti til að stækka heiminn smátt og smátt í staðinn fyrir að láta það líta út eins og uppbygging. Myndin er vissulega hlaðin hasar og látum - miklu meira heldur en Thor og Iron Man-myndirnar – og tapar svo sannarlega ekki athygli manns á þeim sviðum, en það sem hitti hvað mest í mark var Chris Evans. Einlæga frammistaðan hans, hvolpalega sakleysi persónunnar Steve Rogers og vilji hans fyrir því að gera eitthvað rétt fyrir þjóð sína gefur myndinni nokkuð hlýjan kjarna. Maður heldur vafalaust upp á þennan karakter og fylgir honum alla leið.

Myndin er samt alls ekki að fróa sér yfir bandaríska fánanum og hamra ofan í okkur þau skilaboð að alvöru hetjurnar séu fæddar í Ameríku. Hún nýtir sér meira að segja öll þau tækifæri sem hún getur til að gera grín að því öfgakennda tákni sem Kapteinninn er. Það róar mann líka talsvert niður að sjá að flestar aukapersónurnar eru frá mismunandi löndum. Í höndum einhvers annars hefði samt persónuleiki hetjunnar alveg getað týnst en Evans græjar henni mikilli sál og nýtur góðs stuðnings frá frábærum aukaleikurum, alveg eins og Hemsworth gerði í Thor. Að utanskildum hermönnunum sem fylgja ofurhetjunni (semsagt Howling Commandos, fyrir ykkur sem þekkja þetta) og fá hroðalega litla athygli þá eru flestar aukapersónurnar nokkuð minnisstæðar. Hayley Atwell er krúttleg og sjálfsörugg sem eina kvenkyns persónan sem gerir meira en að brosa. Í svona myndum falla stelpur oft í þá gryfju að lenda bara í klípu og slefa yfir hetjunni, en ekki hér. Það er alltaf gaman að sjá slíkan karakter sem fer ekki bara gegn stereótýpu, heldur tekur smá þátt í hasarnum.

Hvað illmennið varðar verður að segjast að Red Skull er eins einhliða og þau gerast. Það má vel vera að hann sé klassískur í augum aðdáenda, en það hefði miklu skipt að gefa honum eitthvað örlítið meira en þetta týpíska "god complex." Ég held þó að enginn hefði getað túlkað þennan mann betur en Hugo Weaving og því fær hann jafnstórt hrós og glæsilega bifreiðin hans. Bestir eru samt þeir Stanley Tucci, Tommy Lee Jones og eftirnafni hans, Toby (dýrka þennan leikara!). Þeir þrír eru allir svo góðir að ég er næstum því öruggur um að þeir tryggi það að eldri hópar geti notið myndarinnar miklu betur en flestar aðrar Marvel-myndir. Svo kemur Dominic Cooper nokkuð vel út sem Howard Stark. Hann passar það að herma ekki of mikið eftir Downey en maður tekur samt eftir sameiginlegum töktum. Feðgatengingin ætti ekki að fara framhjá neinum sem hefur starfandi heila.

Veikustu hliðar myndarinnar koma aðallega leikstjórninni við hjá Joe Johnston og ákveðnum handritsgalla. Johnston hefur aldrei verið í miklu uppáhaldi hjá mér, og fyrir utan Captain America er The Rocketeer sú eina mynd sem mér líkaði virkilega vel við eftir hann. Kaldhæðnislega eru þær einmitt býsna svipaðar. Þær hafa gott afþreyingargildi og ákveðinn nostalgíutón sem smellpassar við sögusviðið. Johnston kann á hasar og brellur – bæði tölvugerðar og praktískar – en samt er hann ekki alveg nógu góður með tilfinningar í sínum myndum. Það eru nokkur augnablik í þessari mynd sem mér fannst eiga vera kraftmeiri en þau voru. Leikararnir gerðu sitt allra besta, og maður sá það strax, en ég fékk aldrei þá tilfinningu að leikstjórinn væri að vanda sig nóg. Tónlist Alans Silvestri var sömuleiðis fín en heldur kunnug og langt frá því að vera minnisstæð, annað en tónlistarnúmerið sem Alan Menken samdi. Allt montage-ið í kringum það er líklegast albesti kaflinn í allri myndinni.

Frásögn myndarinnar dettur aðeins niður á sjálfsstýringu í seinni hlutanum, en ekki á of alvarlegan hátt. Hasarfíklarnir munu alls ekki kvarta, en þeir sem vilja góða sögu munu taka eftir því að hún fuðrar dálítið upp um leið og skothríðin byrjar og Evans kominn í almennilega búninginn sinn – sem er annars prýðilega hannaður. Annars fer ekki á milli mála að allt sem virkar í þessari mynd svínvirkar og hún er almennt langt frá því að teljast ófullnægjandi. Hún hefur rétta andann og er í hnotskurn bara drullugóð sumarsprengja. Og já, þrátt fyrir þá absurd sjón í fyrri hlutanum að sjá andlit Chris Evans límt á lítinn, horaðan líkama þá kemur sú steikta brella bara hreint ágætlega út. Allavega betri fljótandi haus heldur en sá sem Ryan Reynolds átti þegar hann fór í Green Lantern-búninginn.

7/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

29.11.2016

Saga áhættuleiks á 2,5 mínútum

Það kannast kannski margir við myndbönd sem orðið hafa vinsæl á YouTube um sögu dansins, ( Evolution of Dance ),  en nú er komið út glænýtt myndband þar sem áhættuleikari fer með svipuðum hætti í gegnum sögu áhættuleiks,...

19.07.2015

Litla ofurhetjan vinsælust í USA

Disney/Marvel ofurhetjumyndin Ant-Man er vinsælasta mynd helgarinnar í Bandaríkjunum, með tekjur upp á 56,4 milljónir Bandaríkjadala. Þessi niðurstaða er samkvæmt Deadline vefnum, í takt við spár. Í samanburði við fyrri ofurhetjumyndir þá er myndin með lakari ...

22.10.2013

Washington í hættu - Nýtt plakat úr Captain America 2

Nýtt plakat er komið fyrir Marvel ofurhetjumyndina Captain America: The Winter Soldier með Chris Evans, sem nú leikur hlutverk ofurhetjunnar Captain America í þriðja skiptið ( Captain America: The First Avenger,  Captain Amer...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn