43 þúsund hafa séð Spider-Man: No Way Home

Enn heldur Köngulóarmaðurinn í Spider-Man: No Way Home áfram að heilla landann en aðsóknin á myndina er meira en tvöfalt meiri en á næstu mynd á eftir, Syngdu 2. Spider-Man hefur verið í bíó í þrjár vikur og hefur allan þann tíma setið í efsta sæti íslenska bíóaðsóknarlistans.

43.500 manns hafa barið Spider-Man augum frá því myndin var frumsýnd.

Eina nýja myndin sem frumsýnd var um síðustu helgi, West Side Story, náði ekki að velgja Köngulóarmanninum undir uggum, en tekjur af myndinni námu tæpum 750 þúsund krónum á meðan Spider-Man: No Way Home rakaði saman tæplega fimm milljónum í miðasölunni.

Myndin er nú orðin næst tekjuhæsta kvikmyndin sem er í sýningum í íslenskum bíóhúsum með 66 milljónir króna í heildartekjur, en á toppnum trónir íslenski grín-hasarinn Leynilögga með 76 milljónir rúmar eftir ellefu vikur í sýningum.

Sjáðu bíóaðsóknarlistann í heild sinni hér fyrir neðan: