Allir eiga skilið að verða ástfangnir

Shameless og The Dropout stjarnan William H. Macy vonast til þess að áhorfendur sem mæta í bíó til að sjá nýju gamanmyndina hans, Maybe I Do, sem kom í bíó hér á Íslandi nú um helgina, trúi því í lok myndar að fólk eigi skilið og geti orðið ástfangið, sama á hvaða aldri það er.

Aðrir í leikhópi myndarinnar, sem leikstýrt er af Michael Jacobs, eru Diane Keaton, Richard Gere, Susan Sarandon, Emma Roberts og Luke Bracey.

Allir með öllum.

Í myndinni er sagt frá parinu Michele og Allen en þeim finnst kominn tími til að foreldrar þeirra hittist. Þau efna til matarboðs en þegar foreldrarnir mæta kemur í ljós að hvert og eitt þeirra er að sofa hjá hinu. Foreldrarnir reyna að koma í veg fyrir að börnin átti sig á þessu sem hefur sprenghlægilegar afleiðingar og mikil ringulreið skapast.

Lífið er erfitt

„Lífið er erfitt og hjónaband sömuleiðis auk þess sem það er flókið og hvort sem okkur líkar það betur eða verr, þá eru hjónabönd oft slæm hugmynd og þau fara í vaskinn. Þið endið á að þola ekki hvort annað og valdið hvort öðru skaða. Það gerist. En hjónabönd geta líka heppnast vel,“ sagði Macy í símaviðtali við vefmiðilinn UPI.

„Niðurstaðan í þessu er að við eigum öll skilið að verða hamingjusöm og maður verður að halda áfram með lífið. Þegar ykkur líður eins og þið séuð strand, þá byrjið þið að eyðileggja hvort annað, að óþörfu,“ sagði hinn 72 ára gamli leikari, ómyrkur í máli. „Þetta er lærdómur sem báðir foreldrar vilja kenna börnum sínum.“

Endurtaka mistök

Mest krefjandi andartak myndarinnar er þegar Michelle og Allen reyna að átta sig á hvort þau geti gert hvort annað hamingjusamt til lengri tíma eða hvort að örlög þeirra séu að endurtaka mistök foreldra sinna.

Macy lýsir persónu sinni í myndinni, Sam, sem góðum manni með hreint hjarta og segir að hann sé ekki jafn kaldhæðinn og eiginkona hans Monica, sem Susan Sarandon leikur, eða persóna Richard Gere, Howard.

Trúir enn á sanna ást

„Sam trúir enn á sanna ást. Hann er alltaf vongóður, eins og ég,“ bætir Macy við.

Á meðan Monica og Howard hafa verið að stelast til að stunda kynlíf á hótelherbergjum í marga mánuði þá eru Sam og eiginkona Howard, Grace, sem Keaton leikur, nýbúin að hittast óvænt. Þau horfðu saman á bíómynd eina kvöldstund, borðuðu steikan kjúkling og ræddu vandamál sín.

Macy viðurkennir að hafa verið með stjörnur í augum yfir Keaton, sem er 77 ára. Hann segist hafa dáðst að henni síðan hann sá hana í sögulegu myndinni Reds frá árinu 1981. „Það var rómantískasta atriði sem ég hef séð á ævinni,“ sagði leikarinn og á þar við lestaratriðið þar sem Keaton hittir persónu Warren Beatty á ný.

Sarandon er svöl

Hann segist einnig hafa verið heillaður af Susan Sarandon, 76 ára, sem lék aðalhlutverk í mörgum uppáhalds myndum hans, eins og Thelma & Louise, Bull Durham og Witches of Eastwick.
„Hún er svo svöl leikkona,“ segir Macy hlæjandi. „Hún velur alltaf góð handrit og er ætíð stórkostleg.“