Allt væntanlegt frá Marvel til ársins 2025

Á afþreyingarráðstefnunni Comic-Con í San Diego í Kaliforníu um helgina upplýsti Kevin Feige, forstjóri framleiðslufyrirtækisins Marvel, áhorfendur um frumsýningardaga væntanlegra Marvel kvikmynda og sjónvarpsþátta, allt þar til Avengers: Secret Wars verður frumsýnd árið 2025.

Fyrir þremur árum sagði forstjórinn frá því á sömu ráðstefnu að fjórði fasi Marvel heimsins myndi enda á sjónvarpsþáttunum She-Hulk: Attorney at Law í ágúst 2022 og Black Panther: Wakanda Forever í Nóvember nú í ár.

Kevin Feige

Eftir að hafa þurft að þola nokkra gagnrýni sem snerist um að fjórði fasinn virtist ekki hafa haft neinn sérstakan endi eða markmið, sneri Feige nú aftur á Comic-Con til að segja hver stefnan væri í fasa fimm og sex.

Hefst með Ant-Man

Fasi fimm hefst með Ant-Man and the Wasp: Quantumania í febrúar 2023, en þar birtist í fyrsta skipti Jonathan Majors sem Kang the Conqueror.  Á eftir henni kemur lokamyndin í Guardians of the Galaxy seríunni, Guardians of the Galaxy Vol. 3, í maí á næsta ári.

Blade endurræsingin, með Mahershala Ali, fékk frumsýningardag í nóvember 2023 og fyrsta mynd Anthony Mackie þar sem hann leikur Captain America, Captain America: New World Order, kemur í maí 2024.  Fasa fimm lýkur svo með Thunderbolts, þar sem Marvel andhetjur mæta til leiks. Myndin kemur í júlí 2024.

Ofurkraftar

Sjónvarpsþættir í fasa fimm eru Secret Invasion, Echo, önnur sería af Loki, the Black Panther: Wakanda Forever hliðarþættirnir Ironheart, WandaVision hliðarþættirnir Agatha: Coven of Chaos og Daredevil: Born Again, þar sem Charlie Cox mætir aftur til leiks í hlutverki ofurhetjunnar.

Þrjár í fasa sex

Feige sagði einnig frá þremur kvikmyndum í fasa sex. Hann byrjar með Fantastic Four endurræsingu í nóvember 2024 og að lokum koma tvær Avengers myndir, sem frumsýndar verða með sex mánaða millibili, Avengers: The Kang Dynasty í maí 2025 og að lokum Avengers: Secret Wars í nóvember 2025.

Á ráðstefnunni staðfesti Feige einnig að Russo bræðurnir, sem leikstýrt hafa tveimur Avengers myndum, muni ekki snúa aftur í nýju myndunum.