Avatar og Titanic í bíó á ný í hærri upplausn

James Cameron stórmyndirnar Avatar og Titanic verða sýndar aftur í bíó í hærri upplausn og í meiri myndgæðum en áður.

Samkvæmt útgáfuáætlun íslensku bíóhúsanna er von á Avatar í bíó í þessari útgáfu þann 23. september næstkomandi en Titanic kemur í bíó á Íslandi 10. febrúar 2023.

Úr Avatar

Þetta eru frábærar fréttir fyrir fjölmarga aðdáendur myndanna, sem eru meðal vinsælustu kvikmynda bíósögunnar.

Þannig er Avatar tekjuhæsta kvikmynd allra tíma með samtals 2,8 milljarða Bandaríkjadala í tekjur á heimsvísu.

Titanic er þriðja tekjuhæsta kvikmynd allra tíma, á eftir Avatar: Endgame, með 2,2 milljarða Bandaríkjadala í tekjur.

Leanardo Di Caprio og Kate Winslet í Titanic.

Í frétt TVB Europe af málinu segir að framleiðslufyrirtæki Cameron, Ligthstorm Entertainment vinni með Pixelworks TrueCut Motion við endurvinnslu kvikmyndanna.

„Við ætlum að færa Avatar og Titanic aftur upp á stóra tjaldið, betur útlítandi á allan hátt,“ sagði Cameron. „Við ætlum að sýna báðar myndir í 4K upplausn og höfum unnið með Pixelworks TrueCut Motion platform við að endurvinna myndirnar í hárri upplausn, á sama tíma og við höldum útliti upprunalegu myndanna.“

Samkvæmt Pixelworks  þá er tækni TrueCut Motion það góð að uppfærslan sem myndir fá er „langt umfram það sem áður var mögulegt.“

Viss um að fleiri fylgi í kjölfarið

„Lightstorm er rétt einu sinni að víkka út mörk hinnar kvikmyndalegu upplifunar, og við erum himinlifandi að fá að vera hluti af því,“ segir Richard Miller, framkvæmdastjóri TrueCut hjá Pixelworks.  „Eftir að hafa upplifað uppfærðar útgáfur af Avatar og Titanic, þá erum við handvissir um að fleiri og fleiri kvikmyndagerðarmenn verði spenntir að nýta sér þessa tækni í framtíðinni.“