Avatar: The Way of Water flýgur hæst

Aðra vikuna í röð ber stórmyndin Avatar: The Way of Water höfuð og herðar yfir aðrar kvikmyndir í íslenskum bíóhúsum.

Rúmlega þrettán hundruð manns komu að sjá myndina á Þorláksmessu, en topplisti helgarinnar nær aðeins yfir þann eina dag þar sem lokað var í bíóum á aðfangadag og á Jóladag.

38 milljarðar í USA

Samanlagt eru tekjur Avatar: The Way of Water tæpar 34 milljónir króna eftir tvær helgar í sýningum en í Bandaríkjunum, þar sem myndin er einnig á toppnum, voru tekjurnar um helgina 64 milljónir bandaríkjadala. Samanlagðar tekjur kvikmyndarinnar í Bandaríkjunum frá frumsýningardegi eru 262 milljónir dala, eða tæplega 38 milljarðar íslenskra króna.

Fram úr Black Panther

Þess má til gamans geta að Avatar: The Way of Water er orðin tekjuhærri en Marvel ofurhetjumyndin Black Panther: Wakanda Forever hér á Íslandi, en hún er með tæpar 33 milljónir króna eftir sjö vikur í sýningum.

Önnur tekjuhæsta kvikmynd á Íslandi um helgina var teiknimyndin Strange World, eða Skrýtinn heimur, en hún fer upp um eitt sæti á milli vikna.

Jólasveinninn gírugi í Violent Night kemur svo í humátt á eftir í þriðja sætinu, en hann var í öðru sæti í síðustu viku.

Sjáðu aðsóknarlistann í heild sinni hér fyrir neðan: