Before Midnight kláruð, í laumi

Já það virðist sem að hjartaknúsarinn og jafnframt einn aðalleikari Before-myndanna, Ethan Hawke, hafi logið allsvakalega að okkur öllum. Fyrir aðeins viku var leikarinn gripinn og aðspurður hvernig framleiðsla á þriðju myndinni, sem heitir nú Before Midnight, gengi. Mjög sakleysislega svaraði hann: „Við erum að skrifa þriðja kaflann að Before Sunrise. Ef þetta gengur upp, þá setjum við hann í tökur, og ef þetta gengur ekki upp, þá gerum við það ekki. Þetta er eiginlega ekki þess virði að tala um.
Fyrr í sama mánuði vildi mótleikkona hans, Julie Delpy, meina að myndin færi ekki í tökur fyrr en á næsta ári og að samtals væri kannski eitt og hálft ár í fullkláruðu útgáfuna.

Í dag hins vegar fengum við ekki aðeins þær sjokkerandi fregnir að myndin kláraði tökur í gær, heldur gaf framleiðslan einnig frá sér fyrstu myndina af tvíeykinu yndislega að gera hvað annað; rölta saman. Í þetta skiptið verður það um þekkta borg Grikklands (hvaða, vitum við ekki enn) og líklegast enda þau þar af einstaklega rómantískri ástæðu. Hawke og Delpy sendu frá sér stutta yfirlýsingu til að fagna stöðu verkefnisins: „Það er frábært að vera komin aftur saman! Í þetta skiptið i fallega Grikklandi til að enn og aftur skoða líf Jesse og Celine, níu árum eftir að Jesse missti næstum af fluginu sínu.

Richard Linklater og co. munu taka myndina með sér á Toronto Film Festival, sem hefst nú á dögunum, til að finna vonandi framleiðendur. Annars fer eftirvinnslan augljóslega að hefjast, þannig jafnvel fáum við gripinn í byrjun næsta árs; maður krossleggur fingurnar.
Síðan, jafnvel þó að manni líði svolítið sem svikinn, er bara stórkostlegt að hún er orðin að veruleika fyrr heldur en síðar. Tími til að blása rykið af Before Sunrise og Sunset!