Ber vel í veiði aðra vikuna í röð

Íslenska gamanmyndin Allra síðasta veiðiferðin leggst greinilega firnavel í landann en hún er nú aðra vikuna í röð á toppi íslenska bíóaðsóknarlistans. Skyldi myndin ná sömu vinsældum og fyrsta myndin, Síðasta veiðiferðin, sem var vinsælasta kvikmynd hér á landi árið 2020? Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu í það minnsta.

Nýju myndirnar tvær í bíó, sem frumsýndar voru um síðustu helgi, náðu sem sagt ekki að skáka íslensku veiðiklónum. Ævintýra-gaman-rómans myndin fjöruga The Lost City náði öðru sæti aðsóknarlistans með 4,5 milljónir króna í aðgangseyri og Ambulance, sjúkrabílatryllirinn, sems byggð er á samnefndri danskri mynd, náði fimmta sætinu með 670 þúsund krónur í aðgangseyri.

Batman orðin önnur aðsóknarmest

Myndin í þriðja sæti, fyrrum toppmyndin The Batman, er nú orðin önnur aðsóknarmesta myndin á listanum á eftir Spider-Man: No Way Home með samtals 54 milljónir í greiddan aðgangaseyri. Spider-Man er komin upp í tæpar 99 milljónir króna.

Sjáðu íslenska bíóaðsóknarlistann í heild sinni hér fyrir neðan: