Bjóða í blóðuga veislu

Þegar við lifum kósí og þægilegu lífi er ekkert betra en að setjast í bíósal og þegar ljósin slökkna að leyfa hryllingi á tjaldinu að læsa um sig í huga manns.

Hrollvekjandi stúlka úr myndinni Dachra.

Þeir sem vilja koma blóðinu á hreyfingu með þessum hætti, eiga gott í vændum því RIFF, alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, ætlar sér að bjóða upp á þá nýjung á hátíðinni í ár, sem hefst þann 26. september nk., að bjóða upp á nýjan flokk mynda, hryllingsmyndir, eða hrollvekjur, eins og þær eru gjarnan kallaðar.

Kattarkvikindi úr myndinni Koko-Di Koko-Da

Áhersla RIFF er þó ekki á hrollvekjur almennt, heldur norrænar hrollvekjur, eða þær sem gerast á norrænum slóðum, eins og það er orðað í tilkynningu frá hátíðinni. „Hver vill ekki sjá sætt og saklaust par festast í súrrealískri martröð með blóðþenkjandi fjöllistamanni eða horfa á myndina Hrútskýringarblóð-baðið í Helsinki,“ segir í tilkynningu frá RIFF, sem kveðst ætla að bjóða upp á kvikmyndaveislu í „allri sinni blóðugu dýrð“.

Hér fyrir neðan eru norrænu hrollvekjurnar sem í boði verða:

KOKO-DI KOKO-DA eftir Johannes Nyholm.

Söguþráður: Par fer í skógarferð til að reyna að bjarga sambandinu eftir að hafa upplifað mikið áfall. Þau festast í súrrealískri martröð með blóðþenkjandi fjöllistamanni og skuggalegu fylgdarliði hans.

EVIL ED, eftir Anders Jacobsson.

Söguþráður: Ed er ljúfur og listrænn klippari í þægilegu starfi. Þegar hann er færður yfir í hryllingsdeildina og látinn ritskoða hrollvekjur daginn út og inn byrjar hann smátt og smátt að missa vitið. Sænsk költmynd sem er í senn óður til subbumynda níunda áratugarins og glettin ádeila á sænska ritskoðunarkerfið.

DACHRA eftir Abdelhamid Bouchnak

Söguþráður: Yasmin er nemi í blaðamennsku sem ákveður ásamt tveimur vinum að gera skólaverkefni um dularfulla konu sem fannst limlest fyrir 25 árum en er núna læst inni á hæli og grunuð um galdur. Á meðan á rannsókn þeirra stendur rata þau inn á fornar og ógnvænlegar slóðir í einangruðu þorpi, fullu af geitum, þöglum konum, dularfullu þurru kjöti og sjóðandi pottum. Dachra er fyrsta hrollvekjan sem Túnis getur af sér.

Norðlægar hryllings-stuttmyndir:

HAND IN HAND eftir Ennio Ruschetti

Söguþráður: Það eina sem er eftir til að innsigla samkomulag er formlegt handband tveggja stjórnmálamanna. Þegar báðir reyna að ná yfirhöndinni við þá athöfn vaknar grimmdarleg þvermóðska þeirra til lífsins.

MILK eftir Santiago Menghini.

Söguþráður: Síðla kvölds heldur táningur niður í eldhús að sækja sér mjólkurglas. Þegar hann rekst á svefnvana móður sína kemur fljótlega í ljós að ekki er allt sem sýnist í rökkrinu.

LA NORIA eftir Carlos Baena

Söguþráður: Ungur drengur sem nýtur þess að teikna og byggja parísarhjól rekst óvænt á skepnur sem setur líf hans á hvolf.

HELSINKI MANSPLAINING MASSACRA / Hrútskýringablóðbaðið í Helsinki eftir Ilja Rautsi.

Söguþráður: Hryllingskómedía um örvæntingarfullan flótta einnar konu undan hópi manna sem vilja útskýra (þ.e. hrútskýra) allt fyrir henni. Myndin hefur hlotið fjölda viðurkenninga á hryllingsmyndahátíðum víða um heim.

THE NIGHT OF THE PLASTIC BAGS / Nótt plastpokanna eftir Gabriel Harel.

Söguþráður: Agathe er 39 og er með þráhyggju: hún vill eignast barn. Hún rekst á fyrrverandi og á meðan hún reynir að sannfæra hann um að byrja saman aftur vakna plastpokar til lífsins og gera árás á borgina.

ÞULA / Lullaby eftir Hauk M. Hrafnsson

Söguþráður: Þula er rómantísk vísindafantasía þar sem ótrúleg þrautseigja manns fléttast inn í heim vísindaskáldskapar. Tíminn leysist upp og víddir beygjast á meðan hann glímir við örlögin. Myndin keppir í flokki íslenskra stuttmynda um stuttmyndaverðlaunin.

Annar hrollur

Auk þeirra mynda sem tilheyra flokki norrænna hryllingsmynda þá verða sýndar aðrar hrollvekjur, eða The Dead Don’t Die eftir Jim Jarmusch), Little Joe eftir Jessica Hausner og Die Kinder der Toten eftir Kelly Copper og Pavol Liska.