Boyega ósáttur við Disney: „Svona ferli ger­ir þig reiðan“

Breski leik­ar­inn John Boyega lét hörð orð falla í garð Disney á dögunum, en hann var staddur í viðtali við tímaritið GQ þegar hann gagnrýndi hvernig framleiðendur nýjasta Star Wars þríleiksins hafi þá leikara sem tilheyrðu minnihlutahópum. Hann telur Disney hafa markaðssett myndirnar á röngum forsendum og var minnihlutahópum síðar meir „ýtt til hliðar“ við gerð mynd­anna.

Flestir áhorfendur þekkja Boyega sem Finn, stormsveitarmann sem barðist með uppreisnarmönnum sagnanna, en persónan hefur jafnframt verið víða gagnrýnd af aðdáendum syrpunnar. Finn er oft sagður vera tilgangslaus og gerir fátt annað en að æpa nafnið „REY!“ í myndunum The Force Awakens, The Last Jedi og The Rise of Skywalker.

Boyega segist vera bitur yfir sinni reynslu og bætir við að fleiri leikarar úr minnihlutahópum, til dæmis Oscar Isaac (Poe), Kelly Marie Tran (Rose) og Naomi Ackie (Jannah) hafi fengið sambærilega meðferð. 

„Svona ferli ger­ir þig reiðan. Það ger­ir þig vígdjarfari, það breyt­ir þér,“ seg­ir Boyega og tekur fram að leikararnir Daisy Ridley (Rey) og Adam Driver (Kylo Ren) hafi verið þau einu sem fengu eitthvað bitastætt að gera með hlutverk sín. Boyega segir Ridley og Driver vera sammála sér í þessum málum.

„Ég myndi ráðleggja Disney að koma ekki fram með svart­an karakt­er, aug­lýsa hann eins og hann sé mikl­um mun mik­il­væg­ari í mynd­un­um en hann er í raun, og síðan láta ýta þeim til hliðar. Það er ekki gott. Ég segi það hreint út.“