Brosnan vill sjá Elba sem James Bond

idris-elbaFyrrverandi James Bond-leikarinn Pierce Brosnan vill sjá breska leikarann Idris Elba, sem næsta James Bond. Elba er hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Russell ‘Stringer’ Bell í sjónvarpsþáttunum The Wire.

,,Hann væri flottur Bond,“ sagði Brosnan í útvarpsviðtali á dögunum. Brosnan bætti við að hann myndi einnig vilja sjá Colin Salmon í hlutverkinu.

Mikið hefur verið rætt um hver eigi að taka við Daniel Craig, en hann hefur samning um eina Bond mynd til viðbótar þeirri sem nú er í vinnslu, Spectre.

Í umræðunni hefur nafn Elba oft komið upp og hefur hann tjáð sig um málið og m.a. sagt að hann vilji ekki fá hlutverkið einungis útaf því að hann er dökkur á hörund.

“Ég hef alltaf haft óbeit á frasanum ‘svartur Bond’, ég bara skil það ekki,“ sagði Elba í sjónvarpsviðtali á síðasta ári. ,,Við segjum ekki ‘hvíti Bond’, við segjum bara ‘Bond’ afhverju ætti svartur leikari að þurfa að vera ‘svarti Bond’?“ bætti Elba við.

Það ætlaði þó allt um koll að keyra þegar Elba setti inn mynd af sjálfum sér á Twitter sína um áramótin undir yfirskriftinni ,,Á 007 ekki að vera myndarlegur?, mér þykir vænt um að þið sjáið mig fyrir ykkur í hlutverkinu, gleðilegt nýtt ár!“.