Sjáðu brot úr nýjustu mynd Finchers

Glænýtt sýnishorn er lent fyrir kvikmyndina Mank, frá leikstjóranum David Fincher, en á bakvið hana standa stórrisarnir hjá Netflix og verður myndin gefin út á streymið þann 4. desember.

Það er faðir leikstjórans, Jack Fincher, sem skrifaði handritið að myndinni en hann lést árið 2003. Sögusvið ‘Mank’ er Hollywood á fjórða áratug síðustu aldar og fjallar hún um drykkfellda handritshöfundinn Herman J. Mankiewicz (leikinn af Gary Oldman) og tengsl hans við erfiðan skemmtibransann.

Höfundurinn vinnur hörðum höndum að handriti kvikmyndar að nafni Citizen Kane fyrir Orson Welles (Tom Burke). Sú kvikmynd hefur í gegnum menningarsöguna verið talin með betri bíóverkum síðustu aldar. Á sínum tíma hlaut handritið Óskarsverðlaun og skrifast það á báða Mankiewicz og Welles, en lengi hefur verið deilt um hvor skrifaði hvað – og hversu mikið.

Með önnur hlutverk í Mank fara Amanda Seyfried, Lily Collins, Arliss Howard, Tuppence Middleton, Joseph Cross og Charles Dance ásamt fjölda annarra. Þeir Trent Reznor og Atticus Ross sjá um tónlistina, líkt og í undanförnum myndum leikstjórans.