Die Hard 5 leitar að John McClane Jr.

Fimmta Die Hard myndin er nú á fullu í undirbúningsstiginu, og hefur fengið titilinn A Good Day to Die Hard. John Moore (The Omen, Max Payne) hefur verið staðfestur í leikstjórastólinn, og mun myndin hefjast á því að John McClane ferðast til Moskvu til þess að hjálpa afvegaleiddum syni sínum úr fangelsi. En ekkert er eins og það sýnist og þeir verða að sýna hvað í þeim býr er þeir verða á vegi vondra hryðjuverkamanna þar í landi. Eðli málsins samkvæmt þarf einhver að leika soninn afvegaleidda, og er nú verið að leita að ungum og efnilegum leikara, sem mögulega gæti tekið við seríunni.

Orðróma segja að valið hafi verið þrengt niður í fjóra leikara. Fyrst ber að nefna Aaron Paul sem þekktastur er fyrir frammistöðu sína í Breaking Bad, James Badge Dale er næstur, ungur leikari sem hefur veirð að fá áhugaverð verkefni á borð við The Pacific þættina, Shame með Michael Fassbender, og er væntanlegur í Flight eftir Robert Zemeckis og World War Z með Brad Pitt. D.J. Cotrona var í þætti sem heitir Detroit 1-8-7 og er nú að leika í G.I. Joe 2: Retaliation ásamt Bruce Willis. Liam Hemsworth er síðan sennilega þekktasta nafnið á listanum, ekki af því að hann hefur leikið í svo mörgu, heldur af því að hann er orðaður við hvert einasta karlhlutverk í Hollywood um þessar mundir – ásamt því að vera litli bróðir Chris „Thor“ Hemsworth. Hann mun samt sjást í The Hunger Games og The Expendables 2 á næsta ári, í þeirri seinnni ásamt Willis.

Hver þeirra á mestan séns? Við getum aðeins giskað, en það er örugglega plús að hafa nú þegar starfað með kallinum sjálfum. Bruce Willis er einn framleiðanda myndarinnar og er sagður hafa mikið vald yfir stefnu myndarinnar. Haft hefur verið eftir honum að honum finnist nauðsynlegt að hver mynd verði „stærri“ en sú síðasta. Í Die Hard var hann fastur í byggingu, í annari myndinni á flugvelli, í þeirri þriðju var heil borg sögusviðið, í þeirri fjórðu öll Bandaríkin. Þannig að næsta plott verður að vera að þeirri stærðargráðu að það ógni öllum heiminum – það að sögusviðið sé Rússland stöðvar ekki þá orðróma. Njörðum netsins finnst þetta mörgum ekki hljóma svo vel, né heldur val Willis á John Moore í leikstjórastólinn, hann hafi líklega verið valinn vegna þess að hann sé sá leikstjóri sem Willis eigi auðveldast með að stjórna. Vonandi hafa þeir rangt fyrir sér í þetta skiptið…