Disney+ af stað, en ekki án tæknivandræða

Streymisveitan Disney+ er farin í gang, en svo virðist sem fyrstu dagarnir verði ekki áfallalausir. Joblo kvikmyndavefurinn greinir frá því í frétt að þónokkrir viðskiptavinir hafi tilkynnt um ýmiss konar tæknileg vandræði, en talið er að um sjö þúsund manns hafi sent inn ábendingar um tæknilega örðugleika á fyrstu klukkustundunum sem streymisþjónustan var virk.
Færri tilkynntu um erfiðleika við innskráningu, en flestir kvörtuðu undan vandræðum við að streyma efni. Margir gripu til þess ráðs að kvarta á samfélagsmiðlum, eins og algengt er nú á dögum.

En allt þetta var í sjálfu sér viðbúið því Kevin Mayer, yfirmaður notendamála hjá Disney, sagði áður en þjónustan opnaði að það væru alltaf tæknileg vandamál í fyrstu, og alltaf væri rúm til að bæta sig tæknilega.

Disney+ fór fyrst í loftið í Bandaríkjunum, Kanada og í Hollandi. Næst verður þjónustan aðgengileg í Nýja-Sjálandi, Ástralíu og Púerto Rico þann 19. nóvember.

Vestur Evrópubúar þurfa að bíða ögn lengur, en ekki er von á þjónustunni þangað fyrr en í mars á næsta ári.