Dýrið í manninum afhjúpast

Íslenska kvikmyndin Hross verður frumsýnd haustið 2013 en myndin er eftir leikarann og leikstjórann Benedikt Erlingsson, sem bæði skrifar handrit og leikstýrir myndinni. Framleiðandi er Friðrik Þór Friðriksson.  Upptökum á myndinni er nú nýlokið, en þær fóru fram í uppsveitum Borgarfjarðar, og aðallega á þremur bæjum í Hvítársíðu þar sem aðalsöguhetjurnar í myndinni búa. Bæirnir eru Hvammur, Hallkelsstaðir, Fróðastaðir og Fljótstunga. Einnig voru senur teknar upp á Kaldadal og að Hraunsási í Hálsasveit, að því er fram kemur í vikublaðinu Skessuhorni sem gefið er út á Vesturlandi.

Í samtali við RÚV á dögunum sagði Benedikt að honum finndist sögusvið myndarinnar mjög heillandi, samspil manns og dýrs, og sagði dýrið í manninum afhjúpast í samskiptum við hesta og mennskan í hestinum líka.

„Þetta er innansveitarkróníka um mann sem á meri og sjálfstraust hans byggist mikið á þessari meri. Merin hlýðir kalli náttúrunnar og niðurlægir manninn og félagslegri stöðu hans er rústað í sveitinni, og sambandi hans við konuna sem hann er að gera hosur sínar grænar fyrir, og hefur miklar afleiðingar og það fer af stað mikill örlagavefur,“ sagði Benedikt í samtali við RÚV.

Smelltu hér til að horfa á umfjöllun RÚV um myndina.