Einn minnislaus, tvær eldheitar og japanskur draugur

Tvær eldheitar kvikmyndir sem byrja á enska orðinu fire, eða eldur, eru annað hvort nýkomnar í bíó eða verða frumsýndar núna á föstudaginn. Önnur heitir Firestarter, eða Kveikjari í lauslegri íslenskri þýðingu, en hin heitir Fireheart og hefur fengið íslenska nafnið Eldhugi.

Jafnframt er komin ný hörkuspennandi mynd með okkar manni Liam Neeson í aðalhlutverkinu. Hann leikur sem fyrr algjöran nagla en minnið er eitthvað farið að bregðast, sem gerir honum erfitt fyrir.

Þá kemur í bíó á morgun hin hrikalega vinsæla japanska teiknimynd Jujutsu Kaisen 0, sem er að tröllríða aðsóknarlistum um allan heim.

Fyrsti kvenkyns slökkviliðsmaðurinn

Opinber söguþráður Eldhuga er eitthvað á þessa leið: Hinni sextán ára gömlu Georgia Nolan dreymir um að verða fyrsti kvenkyns slökkviliðsmaðurinn. Þegar dularfullur brennuvargur byrjar að kveikja í á Broadway, þá hverfa slökkviliðsmenn New York borgar einn af öðrum. Faðir Georgiu, Shawn, er farinn á eftirlaun en er kallaður aftur til starfa til að fara fyrir rannsókn á hvarfi mannanna. Georgia vill ólm hjálpa föður sínum og bjarga borginni og dulbýr sig sem Joe, og slæst í lið með hópi slökkviliðsmanna sem reyna að stöðva brennuvarginn. …

Í umfjöllun Dawn.com um myndina segir að myndin höfði bæði til barna og fullorðinna. Foreldrar eigi eftir að njóta þess að hlusta á raddir Kenneth Branagh ( Hercule Poirot) og William Shatner ( Captain Kirk) á meðan krakkarnir muni lifa sig inn í frásögnina.

Eins og bent er á í umfjölluninni þá eru ákveðin líkindi með sögunni í myndinni og Disney teiknimyndinni Mulan, þar sem stúlka dulbýr sig sem strák til að bjarga landi sínu. „Eldhugi gæti allt eins bjargað deginum, en það er hjartahlýjan sem skiptir öllu máli,“ segir í umfjölluninni.

Leikstjóri Eldhuga er Laurent Zeitoun (Leap!) og Theodore Ty og aðrir leikarar eru Olivia Cooke og Laurie Holden m.a.

Eldfimur hugur

Hin eld-myndin, Firestarter, kom í bíó á föstudaginn síðasta, en margir kannast vafalaust við fyrirrennarann, Firestarter frá 1984 með Drew Barrymore í aðalhlutverkinu.

Myndin er gerð eftir hrollvekju Stephen King og fjallar í stuttu máli um stúlku sem getur kveikt í hlutum með hugaraflinu einu saman, einskonar ofurhetju, en sem á erfitt með að hemja kraftana.

Opinber söguþráður Firestarter er eitthvað á þessa leið: Eftir að hafa verið hluti af tilraunum leynilegrar opinberrar stofnunar, The Shop, fær Andy McGee yfirnáttúrulega hæfileika og kynnist svo draumastúlkunni. Þau eignast dóttur sem hefur einnig yfirskilvitlega hæfileika og getur kveikt í hlutum með hugaraflinu einu saman. The Shop ætlar sér nú að ná þeim aftur til sín.

Óútskýranlegir hæfileikar

Bókin sem myndin er gerð eftir var gefin út árið 1980 en á þeim tíma var Stephen King mjög upptekinn af því að skrifa bækur um krakka með óútskýranlega hæfileika.

Í myndinni fer Michael Greyeyes með hlutverk Rainbird, mannsins sem fær það verkefni að hafa hendur í hári stúlkunnar. Hann segist í samtali við Indiewire lengi hafa verið aðdáandi Stephen Kings og þegar honum var boðið hlutverkið þá varð hann strax spenntur. En persónunni fylgir ákveðin byrði , eins og Indiewire útskýrir.

Í upprunalegu myndinni leikur George C. Scott hlutverkið en hann er ekki af indjánaættum eins og Greyeyes. Persónan er indjáni í bókinni. Greyeyes, sem hefur starfað í Hollywood í þrjátíu ár, leit á þetta sem tækifæri til að gefa persónunni meiri sögulega dýpt og endurskapa torráðna persónu.

Dulrænar myndir

„Ég er mikill aðdáandi Stephen King og það er gaman að segja frá því að þetta var fyrsta sagan hans sem ég las. Þannig að það má segja að ég hafi haft áhuga á henni mjög lengi. Ég kunni líka vel að meta hluti í fyrstu sögunum sem fjölluðu um dulræna hæfileika, eins og Carrie, The Dead Zone og The Shining auðvitað. Þannig að þetta var í raun upphafið að því hvernig ég kynntist verkum hans.“

Leikstjóri Firestarter er Keith Thomas og handrit skrifaði Scott Teems. Með aðalhlutverk fara þau Zac Efron og Ryan Kiera Armstrong, sem leika feðginin.

Hættuleg glæpasamtök

Liam Neeson lætur ekki deigan síga þrátt fyrir að vera kominn á áttræðisaldur og er hér mættur í enn einum spennutryllinum, Memory. Það er því stutt skammra högga á milli hjá hörkutólinu.

Opinber sögurþráður er þessi: Leigumorðingi áttar sig á að hann er sjálfur orðinn skotmark þegar hann neitar að ljúka verkefni fyrir hættuleg glæpasamtök. Nú þarf hann að elta uppi og drepa fólkið sem réð hann til starfa áður en þau og alríkislögreglumaðurinn Vincent Serra ná til hans fyrst. Alex er afar fær í sínu fagi, en minnið er farið að bregðast honum og hann þarf því að velta hverju skrefi vandlega fyrir sér sem gerir mörkin milli þess sem er rétt og rangt þokukennd…

Leikstjóri myndarinnar er Martin Campbell sem gerði James Bond myndina Casino Royale frá árinu 2006.

Það er ljóst, þó ekki sé langt síðan við fengum að sjá aðra Neeson mynd, Blacklight, að hér er er komin enn ein af svipuðu tagi og aðdáendur kappans kætast, enda er Neeson formúlan skotheld og grjóthörð.

Ein tekjuhæsta teiknimyndin

Jujutsu Kaisen 0: The Movie er japönsk teiknimynd sem sló í gegn þegar hún var frumsýnd í heimalandinu á síðasta ári. Smátt og smátt hefur hún vakið athygli víðar um heim. Eins og segir í frétt Comicbook.com þá er myndin nú þegar orðin ein tekjuhæsta teiknimynd allra tíma.

Nýlegar tölur sýna að tekjur myndarinnar eru komnar vel yfir 170 milljónir Bandaríkjadala á heimsvísu frá frumsýningu eða nálægt 23 milljörðum króna. Bara í Japan eru tekjur myndarinnar meira en 120 milljónir dala.  Myndin er nánar tiltekið níunda tekjuhæsta teiknimynd allra tíma.

Sló út sígilda mynd

Sú mynd sem var síðast í níunda sætinu var hin sígilda Princess Mononoke frá Studio Ghibli í Japan. Hún er nú í tíunda sæti. Ef Jujusu Kaisen 0 vill fara enn hærra þá þarf hún að hirða áttunda sætið af engri annarri en Pokemon: The First Movie.

Jujutsu er gerð eftir teiknimyndasögu Gege Akutami, en hún var metsölubók í Japan á sínum tíma. Sagan öðlaðist enn meiri frægð þegar fyrsta myndin var gerð eftir bókinni.

Í þessari nýju mynd kynnast áhorfendur nýrri aðalpersónu, Yuta Okkotsu, en sú sem talar fyrir hana er japanska leikkonan Megumi Ogata.

Ogata segir um aðkomu sína að myndinni að nú séu liðnir meira en fimm mánuðir frá frumsýningu, en hún sé undrandi á því hve margir mæti enn í bíó að sjá kvikmyndir. „Ég er full þakklætis og á engin orð til að lýsa því. Nú er stutt þangað til myndin hættir í bíó. Ég hlakka til að hitta ykkur öll aftur einn daginn sem Yuta Okkotsu.“

Kraftmikil vera

Söguþráður er eitthvað á þessa leið: Allt síðan æskuvinur Yuta Okkotsu, Rika, dó í umferðarslysi þá hefur draugur hennar fylgt honum. En andi hennar birtist honum ekki sem hin yndislega stúlka sem Yuta þekkti. Í staðinn birtist hún sem skelfileg og kraftmikil vera sem verndar hann með offorsi. Yuta er ófær um að stjórna ofbeldisfullri hegðun andans og nær ekki að stöðva blóðbaðið sem fylgir.