Eitthvað eltir hana út um allt

Það verður seint hægt að fá nóg af góðum hrollvekjum, en sem betur fer hefur verið þónokkur gróska í framleiðslu slíkra mynda síðustu misserin. Ný stikla úr unglingahrollinum It Follows lofar góðu, en myndin hefur verið á flakki á milli kvikmyndahátíða við góðar undirtektir, og kemur í almennar sýningar í mars nk.

IT FOLLOWS

Myndin fjallar um hina 19 ára gömlu Jay en að öllu eðlilegu ætti haustið að vera tilhlökkunarefni, margt að gera í skólanum og um helgar að hitta stráka niður við vatnið. En eftir að því er virðist saklaust kynferðissamband, þá er hún allt í einu heltekin af furðulegum sýnum og tilfinningu sem hún losnar ekki við, um að einhver, eða eitthvað, sé að elta hana. Þetta hvílir þungt á henni, og hún og vinir hennar þurfa að finna leið til að komast undan þessum hryllingi, sem alltaf er við næsta fótmál.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan:

Leikstjóri er David Robert Mitchell og með aðalhlutverkið fer Maika Monroe.