Ekki tryllt, ekki prófessor

Game of Thrones ( leikur Margaery Tyrell í GOT )  leikkonan Natalie Dormer er væntanleg á hvíta tjaldið ásamt hinum gamalreyndu Hollywood stjörnum Mel Gibson og Sean Penn í myndinni The Professor and the Madman. Dormer fer þó hvorki með hlutverk prófessorsins, né þess brjálaða.

natalie dormer

Myndin er gerð eftir samnefndri bók Simon Winchester ( sem hét reyndar upphaflega The Surgeon of Crowthorne ) , og segir hina sönnu sögu á bakvið gerð Oxford orðabókarinnar.

Penn mun leika hlutverk Dr. W.C. Minor, vistmanns á geðsjúkrahúsi þar sem hættulegir sjúklingar eru vistaðir, en hann útvegaði 10.000 færslur í orðabókina sem prófessor James Murray ( sem Gibson leikur ) hafði yfirumsjón með að gera árið 1857. Verk Murray varð síðar Oxford orðabókin ( Oxford English Dictionary ).

Dormer mun leika ekkju manns sem persóna Penn myrðir. Samkvæmt frétt The Hollywood Reporter, þá fléttast inn í söguna flókið ástarævintýri, þegar Minor reynir að hjálpa fjölskyldu konunnar.

Gibson hefur átt kvikmyndaréttinn að bókinni síðan árið 1998. Upphaflega ætlaði hann sjálfur að leikstýra myndinni í framhaldi af Óskarsverðlaunamynd sinni Braveheart frá árinu 1995, en ákvað á sínum tíma að gera The Passion of the Christ í staðinn, en hún var frumsýnd árið 2004.

Í stað Gibson mun handritshöfundur Mel Gibson myndarinnar Apocalypto, Farhad Safinia, leikstýra The Professor and the Madman.

Tökur myndarinnar hefjast í september í Evrópu.

Frumsýningardagur er enn á huldu.