Engin risaaðsókn á toppnum

Stórmyndin Jack the Giant Slayer var vinsælasta myndin í bandarískum bíóhúsum nú um helgina og þénaði 28 milljónir Bandaríkjadala. Drengirnir á djamminu í 21 and Over ullu vonbrigðum en myndin þénaði aðeins 9 milljónir dala, og er því langt á eftir vinsældum Hangover og Project X til að mynda, en myndin er skrifuð af sömu handritshöfundum og skrifuðu Hangover metsölumyndina. Myndinni tókst meira að segja ekki að þéna meira en Identity Thief sem er á sinni þriðju viku á lista, og er önnur vinsælasta myndin í Bandaríkjunum í dag.

Það er þó huggun harmi gegn að gengi myndarinnar er ágætt miðað við að hún kostaði aðeins 13 milljónir dala í framleiðslu.

Gengi 21 and Over var þó ekkert á við kafbátatryllirinn Phantom með Ed Harris og David Duchony, sem floppaði illilega. Myndin er sögð hafa kostað 18 milljónir dala í framleiðslu, en þénaði aðeins 465 þúsund dali um helgina, þrátt fyrir að vera sýnd á 1.100 bíótjöldum.

Gengi Phantom er samkvæmt tölum frá BoxOfficeMojo.com það 15. versta á frumsýningarhelgi fyrir mynd sem frumsýnd er á 600 bíótjöldum og meira.

Þessi fyrsta helgi Jack the Giant Slayer, aðsóknarmestu myndarinnar, er reyndar ekkert til að hrópa húrra fyrir, þar sem kostnaður myndarinnar er langt umfram tekjur helgarinnar, eða á bilinu 150 – 200 milljónir dollara.

Hér fyrir neðan er listi tíu aðsóknarmestu mynda helgarinnar í Bandaríkjunum:

Jack the Giant Slayer 28 milljónir dala
Identity Thief 9,7 milljónir dala
21 and Over 9 milljónir dala
The Last Exorcism Part II, 8 milljónir dala
Snitch  7,7 milljónir dala
Escape From Planet Earth 6,7 milljónir dala
Safe Haven 6,3 milljónir dala
Silver Linings Playbook 5,9 milljónir dala
A Good Day to Die Hard 4,5 milljónir dala
Dark Skies 3,6 milljónir dala