Enginn Gillz

Kvikmyndavefurinn Svarthöfði greindi frá því í gær að framleiðslufyrirtækið Stórveldið hefði ákveðið að fresta frumsýningu bíómyndarinnar Lífsleikni Gillz, um óákveðinn tíma, en frumsýna átti myndina á föstudaginn.

Sjáðu stikluna úr myndinni hér:

Á vefsíðunni er haft eftir Sigmari Vilhjálmssyni, sem er einn af eigendum Stórveldisins, að málaferlum, sem Egill Einarsson stendur í, sé ekki lokið.
„Um miðja síðustu viku kom nýtt atriði upp í þessu máli sem gerir það að verkum að við viljum bíða með sýningar á þáttunum,“ segir Sigmar í samtali við Svarthöfða.is.

Lífsleikni Gillz átti upphaflega að vera sjónvarpsþáttaröð á Stöð 2 en eftir að hætt var við að sýna þættina á Stöð 2 vegna kærumála sem sneru að Gillz og kærustu hans, var ákveðið að klippa þættina saman í bíómynd í fullri lengd.