Erlingur með nýja sýn á rottufangarann

Kvikmyndagerðarmaðurinn Erlingur Óttar Thoroddsen mun skrifa handritið og leikstýra hrollvekjunni The Piper. Það er bransaveitan The Hollywood Reporter sem greindi fyrst frá þessu og segir þar að framleiðslufyrirtækið Millenium Media (e. Nu Image) standi að framleiðslu myndarinnar.

Um er að ræða myrka útgáfu af sögunni um rottufangarann í Hamel (e. Pied Piper), sem er á meðal þekktustu þjóðsagna í Þýskalandi. Nafnið Rottufangarinn er kennt við aðalpersónuna; óþekktan flautuleikara sem birtist í borginni Hamel á meðan gríðarleg rottuplága stendur yfir í borginni. Flautuleikarinn virðist eiga töfraflautu sem hann býst til að nota til að losa borgarbúa við rotturnar gegn gjaldi – en þegar borgarbúar neita svo að greiða honum endar það með skelfilegum afleiðingum fyrir þá alla.

Má þess geta að Millenium Media hefur staðið að stórsmellum á borð við The Expendables, The Hitman’s Bodyguard, Fallen-seríunni með Gerard Butler ásamt myndunum Drive Angry og The Wicker Man. Sjálfur vakti Erlingur mikla athygli með fyrstu kvikmynd sinni, Child Eater, árið 2016 og síðar meir hryllingsmyndinni Rökkur (2017).

Erlingur hefur undanfarin ár verið búsettur í New York og lauk hann MFA námi í kvikmyndaleikstjórn við Columbia háskólann.