Fílgúdd fjör alla leið!

Söngleikir geta verið dauði og djöfull ef þú þolir ekki lögin eða sálarkætandi veisla ef örin bendir í hina áttina. Þá er þetta í rauninni bara orðið að barnastærðfræði, því ef bíómynd inniheldur söngatriði sem taka upp 70-80% af sýningartímanum þá veltur stuðið allt á því hversu gott megnið af lögunum er, hvernig atriðin eru sett upp og hvort atriðin í kringum sönginn séu mökkleiðinleg eða ekki. Ef hlutfall góðra tónlistarnúmera nær yfir 50% af því sem er í boði og ekki með of löngu millibili, þá er erfitt að kalla sig ósáttan.

Kvikmyndir og tónlist er tvennt af því sem ég elska mest í heiminum. Ef bíómynd tekst að sameina þetta tvennt á rafmagnaðan hátt vaknar alltaf þessi spurning hjá mér hvers vegna svona margt fólk þolir ekki söngleiki. Ég gæti þá alveg eins kosið að fyrirlíta gamanmyndir bara út af öllu ruslinu sem maður hefur þurft að þola frá verstu SNL-leikurunum.

Ef lagalistinn í Rock of Ages kveikir smávegis í þér myndi ég segja að þú værir í nokkuð góðum höndum og ef þér líkar ekki illa við tilhugsunina að sjá eldhressa fagmenn flippa eins og þeim sýnist í ótrúlega vönduðu ’80s-rokk ástarbréfi, þá muntu brosa allan hringinn, hlæja upphátt, tappa fótinn og byrja að klappa ósjálfrátt. Þannig leið mér allavega. Oft. Sagan og handritið er ekkert að verkja úr ferskleika en myndin rokkandi út í allar áttir, heldur frábærum dampi og gefur frá sér smitandi gleðiorku sem gerir lífið betra. Best er að taka það fram strax í byrjun að þessa mynd þarftu að sjá í bíósal!

Rock of Ages er samt nánast partur af sérstökum undirgeira á meðal söngleikja þar sem aðeins cover-lög eru notuð og í stað þess að semja lögin í kringum söguna er farið hér öfugt að. Þessi aðferð hefur ekkert alltaf heppnast eitthvað glæsilega en hér heppnast árangurinn bara nokkuð vel. Það eru örfáir lausir endar og handritsgallar, svo ekki sé minnst á eitraða óþefinn sem klisjurnar gefa frá sér, en músíkin er það sem bæði þú og myndin hefur mikinn áhuga á. Hver einasta persóna myndinni og hver einasta stefna í plottinu gengur út á það að koma þér á þann stað sem frægt lag þarf að komast svo það komi eðlilega út. Til samanburðar er þetta mun náttúrulegri og skipulagðari frásögn heldur en sást t.d. í Across the Universe og Mamma Mia.

Ef þessi mynd er eitthvað lengi að toga þig inn í partíið þykir mér ekki líklegt að þú rúllir með henni alla leið. Þeim sem tekst ekki að lifa sig inn í hana munu á endanum bara gagnrýna hana í tætlur á meðan þeim leiðist og stanslaust tuða undan því hvað myndin er langdregin og hefðbundin („…and it goes on, and on, and on“ – eins og fræga lokalagið segir). Þetta mun hins vegar fara minna í þig ef þú rokkar með („Nothing but a Good Time“ – eins og upphafið lofar).

Mín vegna má þessi Adam Shankman leikstýra langflestum bíósöngleikjum sem eru þarna úti. Það er ekkert vit í öðru sem hann hefur hingað til gert og jafnvel þeir sem eru blindir, heyrnar- og meðvitundarlausir gætu skynjað það að Hairspray (2007) var sú mynd sem maðurinn lagði mestu umhyggjuna í á öllum ferlinum. Hún er líka pottþétt ein af skemmtilegri myndum ársins sem hún kom út. Shankman leikstýrði og “koríógraffaði” eins og ekkert væri honum dýrmætara. Orkan var stanslaus, leikarasamspilið stórkostlegt, myndatakan glæsileg, stuðpinnatónninn á kafi í húmor (plús greddu) og hverju einasta söngatriði stýrt eins og það væri mikilvægsta númerið. Í kaupbæti vefst inn í söguna merkilegt brot úr mannkynssögunni og til að kóróna allt tókst svo leikstjóranum að plata stórstjörnu úr Vísindakirkjunni til að snúast gegn sinni eigin ímynd, láta hana veðja allt undir í vægast sagt undarlegu gervi. Allt þetta eru þættir sem einkenna Rock of Ages einnig. Á þessu stigi get ég ekki einu sinni valið á milli myndanna. Þær eru svipaðar, en samt svo ólíkar.

Fyrir mig er augljóst að þessi mynd sé gerð af sama manni og útbjó nammiskálina sem Hairspray er, alveg sama þótt tónlistin er allt öðruvísi og stíllinn ekki eins bjartur og snyrtilegur. Shankman þarf að læra að láta rugl í friði eins og Cheaper By the Dozen 2 og Bedtime Stories og fókusa meira á söngleiki með fullt af leikurum. Glee er samt stór undantekning og mun ég seint fyrirgefa Rocky Horror-slátruninni á þeim bæ. Ojbara, hvað ég hata Glee.

Haldið er þétt utan um stórskemmtilegan hóp. Það er aðeins ein manneskja í myndinni sem er ekki alveg að gera sig í leikaradeildinni en því miður er það hún Julianne Hough, sem er í aðalhlutverki myndarinnar. Sem betur fer er röddin flott og kynþokkinn eldfimur. Síðan er önnur, einhver Mary J. Blige, sem birtist upp úr þurru, spilar stóra rullu og hverfur svo bara. Annars er þetta frábært pakk sem maður fær varla nóg af.

Nýliðinn Diego Boneta er flottur og fyndinn sem hinn helmingur ástarsögunnar og það er eiginlega með hans hjálp að maður kaupir rómantíkina og nennir að sitja í gegnum hundgömlu formúlurnar. Russell Brand minnir mann sömuleiðis á það hversu mikill snillingur hann getur verið ef hann sýnir einungis sínar bestu hliðar með sparlegum skjátíma. Paul Giamatti leyfir söngröddinni að hvíla sig en sýnir vel hvað hann er æðislegur leikari í skemmtilegu aukahlutverki. Catherine Zeta-Jones fær hér um bil sama hlutverk og Michelle Pfeiffer var með í Hairspray (semsagt þröngsýna tíkin með sandinn í klofinu), en þó með viðbættu tvisti. Hinn ómetanlegi Bryan Cranston fylgir síðan með henni eins og hvolpur í ól. Hann gerir ekki mikið en myndin væri ögn slakari án hans. Segjum það bara.

Meira að segja Malin Akerman virðist algjörlega eiga heima í þessari mynd og það gerist yfirleitt aldrei þegar hún er ekki bara viðstödd til að fara úr fötunum. Hún gerir það samt (svona eiginlega) hér, sem er sterkur bónus. Alec Baldwin er fær einnig tækifæri til þess að vera besti Alec Baldwin-inn sem hann getur verið. Ef það er einhver leikari sem tekst alltaf að koma mér í betra skap núorðið, þá er það hr. Donaghy… öh… Baldwin. Óborganlegir frasar og drepfyndinn persónuleiki lýsir honum á sínum besta degi og það gildir svo sannarlega hér, ásamt stórfenglegum aukabónus sem ekkert bjó mig undir fyrir.

Komum við loksins svo að Tom Cruise, sem tekur stóra áhættu en sýnir enn og aftur að hann getur nánast allt – nema leikið þýskan hermann. Að mínu mati hefur hann fengið alltof neikvæða gagnrýni, sem skyggir fullmikið á það hversu alvarlega hann tekur vinnuna sína, en það er auðvitað ekkert nema hrós. Cruise mun samt aldrei geta galdrað fram ljómandi góða sönghæfileika enda heyrist ekki til þeirra hér. Sem ölvuð og ónýt rokkstjarna er hann u.þ.b. fullkominn. Bestu samtalssenurnar eru oftast með honum á móti einhverjum öðrum, t.d. Baldwin, Akerman, Giamatti eða T.J. Miller í meinfyndnu cameo-i. Innkoma ofurstjörnunnar er líka brakandi snilld. Örugglega sú besta hingað til.

Rock of Ages er gjörsamlega pökkuð af gullmolum, sem margir trompa langbestu atriðin í Hairspray. Þarna er ekki bara átt við slagarana heldur uppsetningarnar á númerunum. Það er gagnslaust og tímafrekt að nefna öll flottustu atriðin, en það eru aftur á móti tveir ólíkir dúettar sem stóðu langt upp úr minninu. Fyrst var það þegar Cruise og Akerman taka I Wanna Know What Love Is og síðan þegar Brand og Baldwin grípa lagið Can’t Fight This Feeling. Önnur þessara sena er ein sú kynþokkafyllsta sem hefur lengi verið vörpuð á hvíta tjaldið og hin einhver allra, allra fyndnasta (grínlaust, ég fékk tár í augun, verk í kjaftinn og magapínu, ég hló svo mikið). Ég býst við að það liggi í augum uppi hvort er hvað.

Músíkin er ekkert annað en dúndrandi æði (og oft þrælskemmtilega mixuð) og fjörið verður aðeins betra í hvert sinn sem myndin kveikir á klassísku lagi sem maður kann hér um bil utan að, sem eru flest öll ef maður kann að meta ágætis partílög. Aðeins fyrsta söngatariðið (í rútunni) glímir við þau vandræðalegheit að vera í kjánalegri kantinum en myndin er enga stund að jafna sig á því og skellir sér í háan gír beint eftirá. Originalinn er náttúrulega alltaf betri og ekki eru þetta allt lög sem virka í söngleik. Maður þarf stundum að sætta sig við einkennilegar söguákvarðanir til að músíkin komist í gang, en eins og kom fram hér áður eru það lögin sem keyra söguna, ekki öfugt. Að vísu er nokkuð þungt að kyngja bjánalegasta atriði myndarinnar, þar sem stórar og niðurdrepandi ákvarðanir hjá helstu persónunum eru teknar út frá asnalegu vali á orðum. Svona heimska á aðeins heima í hryllingsmyndum.

Rock of Ages hefur margt sem ekki smellir, eins og áðurnefnd „leikkona“ eða þetta týpíska HD lúkk sem bregður stundum fyrir í kvikmyndatökunni. Annars er tilgangurinn ekki annar en sá að koma áhugasömum áhorfendum í magnaðan retrófíling. Mynd þarf ekki að vera sérstaklega góð til að vera brjálæðislega skemmtileg og þessi slorar hvergi með tilraunum sínum til að koma þér í betra skap. Eftir myndina sat ég með félögum mínum aðeins lengur í salnum en margir aðrir og var sama spurningin ekki lengi að koma upp hjá hverjum og einum: „Eigum við að skella okkur aftur??“


(8/10)