Fór á hæli vegna verkja

Þó að kvikmyndaleikarinn Gerard Butler sé að margra mati karlmennskan uppmáluð, þá viðurkennir hann að hann sé kannski ekki nógu harður af sér. „Hugsanlega hefði sterkari manneskja ekki þurft að fara,“ segir skoski leikarinn í samtali við nóvembertölublaðið af Men´s Journal, en Butler á þarna við þriggja vikna dvöl sína á Betty Ford meðferðarhælinu í febrúar sl.

„Þegar þú heyrir orðið meðferð, þá hugsarðu, ´hann er í tómu tjóni´ En ég er ánægður með að hafa farið. Ég er búinn að taka haug af vitlausum ákvörðunum í gegnum tíðina. En ég veit að ég hef líka tekið réttar,“ segir Butler í blaðinu.

Butler áréttar að hann hafi ekki farið í meðferð vegna áfengisvandamála, enda hafi hann ekki drukkið dropa í 15 ár, heldur sé hann fíkill í eðli sínu. Meðferðina fór hann í til að hafa stjórn á verkjum, sem hann hefur þjáðst af síðan hann slasaðist á brimbretti við tökur á myndinni Chasing Mavericks.