Forvitnin verður ofan á

Einmana fræðimaður á ferð í Istanbúl kemst yfir íslamskan anda sem býður henni þrjár óskir gegn því að hún veiti honum frelsi. Þetta er grunnstefið í nýrri kvikmynd sem kemur í bíó á morgun; Three Thousand Years of Longing.

Er andi í glasinu?

Dr. Alithea Binnie (Tilda Swindon) er fræðimaður – ánægð með lífið, rökhyggin og yfirveguð. Hún er mikið fyrir sig og vill ekki mikinn glaum og gleði. Hún er barnlaus en átti eitt sinn eiginmann.

Þrjár óskir

Á ráðstefnu í Istanbúl rekst hún á íslamskan anda (Idris Elba) sem býður henni þrjár óskir í skiptum fyrir frelsi. Þessu fylgja tvö vandamál. Í fyrsta lagi efast hún stórlega um að andinn sé raunverulegur og í öðru lagi er hún fræðimaður á sviði sögu og goðsagna. Hún þekkir því vel allar sögurnar um hrakfarir þeirra sem fá og nýta sér óskir af þessu tagi.

Leggur sig allan fram

Andinn leggur sig allan fram um að sannfæra hana, segir henni stórkostlegar sögur úr fortíð sinni. Á endanum stenst hún ekki freistinguna og gerir nokkuð sem kemur þeim báðum mjög á óvart.

Frumsýnd: 9. september 2022

Aðalhlutverk: Tilda Swindon og Idris Elba
Handrit: George Miller, Augusta Gore og A.S. Byatt (byggt á smásögunni The Djinn in the Nightingale’s Eye)

Leikstjóri: George Miller

Greinin birtist fyrst í Kvikmyndum mánaðarins, sérblaði Fréttblaðsins.