Frægir minnast Garsons – Lést 57 ára að aldri

Bandaríski leikarinn Willie Garson lést í gær eftir erfið veikindi en nýlega var tilkynnt að hann hafði verið að berjast við krabbamein í brisi. Fjölskylda leikarans er sögð hafa verið honum við hlið þegar hann féll frá. Hann var 57 ára að aldri.

Garson er hvað þekktastur fyrir leik sinn sem Stanford Blatch í Sex and the City þáttunum og kvikmyndunum. Þá er hann einnig þekktur úr sjónvarpsþáttunum White Collar og hefur skotið upp kollinum í kvikmyndum á borð við Kingpin, There’s Something About Mary, The Perfect Catch og fleirum.

Nathen Garson, sonur leikarans, sagði fyrst frá andlátinu á Instagram-síðu sinni. Í færslunni fer hann fögrum orðum um föður sinn og skrifar: „Ég elska þig svo mikið pabbi. Hvíldu í friði. Ég er svo glaður að þú hafir getað deilt ævintýrum þínum með mér og hve miklu þú náðir að afreka.“

Á Twitter og víða annars staðar á samfélagsmiðlum má finna hlý orð í garð Garsons. Hér má sjá fáein dæmi um slík.