Framhaldssaga Bird Box í vinnslu hjá Netflix

Streymisveitan Netflix hefur gefið grænt ljós á framhald spennumyndarinnar Bird Box, sem margir ættu að kannast við og skartaði Söndru Bullock í aðalhlutverkinu. Myndin sló rækilega í gegn árið 2018 og horfðu yfir 45 milljón notendur á hana gegnum streymið á fyrstu sjö dögunum eftir útgáfu.

Bird Box, sem leikstýrt er af Susanne Bier, fjallar um móður, sem Bullock leikur, sem fer um eyðilegt landslag, á flótta með tveimur börnum sínum, á sama tíma og mikil ógn veldur sjálfsmorðsfaraldi í heiminum. Handritið er eftir Eric Heisserer, sem tilnefndur var til Óskarsverðlauna fyrir Arrival, en hann skrifar handritið upp úr samnefndri skáldsögu Josh Malerman frá árinu 2014.

Þann 21. júlí næstkomandi verður framhaldssaga Malermans gefin út en bókin ber heitið Malorie og er nefnd eftir persónu Bullocks í Bird Box. Í framhaldinu tekur höfundurinn upp þráðinn þar sem frá var horfið en hefur einnig verið gefið upp að sagan muni spanna rúm tíu ár.

Malerman staðfestir þetta sjálfur í nýlegu viðtali við vefritið Inverse og fullyrðir hann þar að forvinnsla kvikmyndarinnar sé hafin. „Það er furðulegt hvað ég má lítið segja, en þetta er komið í gang. Ég er til í þetta,“ segir Malerman.

Með önnur hlutverk í Bird Box fara Trevante Rhodes (Moonlight) Sarah Paulson (sem lék með Bullock í Ocean’s Eight), John Malkovich, Jacki Weaver, Danielle Macdonald, Lil Rel Howery, BD Wong, Machine Gun Kelly og Tom Hollander.