Frekar ferskar langanir í þrjú þúsund ár

Three Thousand Years of Longing byggir á smásögunni Djinn in the Nightingale’s Eye eftir A.S. Byatt sem kom út árið 1994 og er fersk og ánægjuleg tilbreyting frá ofurhetjumyndasíbyljunni sem hvergi sér fyrir endann á.

Idris Elba og Tilda Swinton njóta sín undir stjórn Mad Max-hugmyndafræðingsins George Miller.

Söguþráðurinn sver sig nokkuð í ætt við söguna um Aladdín, andann og óskirnar þrjár í Þúsund og einni nótt. Hér er þó hins vegar enginn Aladdín í forgrunni, heldur hin mjög svo venjulega Alithea Binnie sem Tilda Swinton leikur. Hún er bókmenntafræðingur sem fer skyndilega að sjá ofsjónir í vinnuferð til Istanbúl. Þar hnýtur hún síðan um dularfulla og, að því er virðist, ómerkilega flösku þangað til upp úr henni kemur andi sem Idris Elba leikur. Samkvæmt hefðinni býður andinn Alitheu þrjár óskir en þó þannig að í raun hljóma hér skemmtileg tilbrigði við kunnugleg stef þar sem myndin kannar dýpri merkingu þess að eiga þess kost að fá óskir uppfylltar.

Kafað í skemmtilega forsögu

Þá er sömuleiðis kafað það skemmtilega ofan í forsögu bæði Alitheu og andans að ég átti auðvelt með að gleyma mér í undarlegri en áhugaverðri forsögu andans þar sem við sögu koma ekki ómerkari persónur en sjálfur Salómon konungur.

Tilda Swinton og Idris Elba standa sig með prýði og virðast raunar bæði hafa feykilega gaman af því að leika í myndinni. Sjálfsagt vegur þáttur leikstjórans og handritshöfundarins, George Miller, þar þungt en hann er þekktur fyrir að koma ekki að kvikmyndaverkefnum nema þau hafi fangað hug hans og hjarta. Þannig kom síðasta mynd hans, Mad Max: Fury Road, út fyrir sjö árum síðan.

Leiddist aldrei

Allt gengur þetta líka þannig upp hjá Miller og hans fólki að mér leiddist aldrei yfir myndinni sem er um það bil eitt besta hrós sem hægt er að gefa kvikmynd. Endirinn er þó frekar snubbóttur og skyndilegur þannig að áhorfandinn er skilinn eftir með þá tilfinningu að eitthvað hafi legið á að binda endahnútinn á söguna.

Niðurstaða: George Miller er í essinu sínu í skemmtilegri mynd sem er þó full endaslepp sem breytir engu um það að hún er engu að síður frekar fersk tilbreyting frá ofurhetjumyndunum sem venjulega eru fyrirferðarmestar í bíó.

Oddur Ævar Gunnarsson.

Gagnrýnin birtist fyrst í Fréttablaðinu