Frumsýning: Escape Plan

Sambíóin frumsýna spennumyndina Escape Plan á föstudaginn næsta, þann 8. nóvember.  „Tveir stærstu hasarmynda leikarar sögunnar eru mættir saman. Sylvester Stallone og Arnold Schwarzenegger í frábærri spennumynd,“ segir í tilkynningu Sambíóanna.

escape-plan-trailer-dl

Öryggissérfræðingurinn Ray Breslin, sem er sérfræðingur í að brjótast út úr rammgerðustu fangelsum, stendur nú andspænis mestu áskorun lífs síns.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Það eru þeir Sylvester Stallone og Arnold Schwarzenegger sem fara með aðalhlutverkin í þessari spennu- og hasarmynd sænska leikstjórans Mikaels Håfström sem á m.a. að baki myndirnar Derailed, 1402 og Shanghai auk myndarinnar Evil (Ondskan) sem sló í gegn árið 2003. Með önnur stór hlutverk í Escape Plan fara þau Vincent D’Onofrio, Vinnie Jones, Jim Caviezel, Sam Neill, Amy Ryan og Curtis James Jackson sem er betur þekktur sem 50 Cent.

Öryggissérfræðingurinn Ray Breslin er þekktur fyrir að koma auga á veikleika í öryggiskerfum og hefur því oft verið fenginn til að brjótast út úr fangelsum til að sýna fram á brestina í þeim.

escape_plan_ver3_xlgDag einn er honum boðið að takast á við enn eitt verkefnið. Það felst í að brjótast út úr rammgerðasta fangelsi sem nokkurn tíma hefur verið byggt og á að vera algjörlega laust við alla veikleika. Ray samþykkir að láta á þetta reyna og veit ekki fyrr en það er orðið of seint að fleira hangir á spýtunni sem setur hann í óvænta stöðu.

Fangelsið, sem kallað er „Gröfin“, verður hans stærsta áskorun til þessa og ef honum á að takast að sleppa þarf hann á aðstoð eins samfanga síns að halda, hins eitilharða Swans Rottmayer sem Schwarzenegger leikur …

Aðalhlutverk: Sylvester Stallone, Arnold Schwarzenegger, Vincent D’Onofrio, Vinnie Jones, Jim Caviezel, Sam Neill, Amy Ryan og 50 Cent

Leikstjórn: Mikael Håfström

Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlan, Keflavík og Akureyri, Selfossbíó, Ísafjarðarbíó og Bíóhöllin Akranesi.

Aldurstakmark: 16 ára

Fróðleiksmolar til gamans:

• Sylvester Stallone slasaðist á fæti við tökur myndarinnar með þeim afleiðingum að sauma þurfti sárið saman með 70 sporum.