Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



The Island
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Úff... Tómur arfi.



Fyrsti hálftíminn er þokkalegur, þó hann minni án efa töluvert mikið á Logan's Run (og að hluta THX-1138). Er meir að segja nokkuð góður miðað við Michael Bay mynd.

Vandamálið er hins vegar restin af myndinn, sem er jú Michael Bay mynd.

Handritið var endurskrifað til að þóknast Bay (upphaflega handritinu var eiginlega hent, höfundinum borgað fyrir að fara og svo allt endurskrifað til að koma fyrir eltingaleikjum og sprengingum).

Ewan McGregor og Scarlett Johansson hafa voða lítið að gera annað en að hlaupa og stara á heiminn eins og naut á nývirki og munu margir án efa furðast yfir því að þau skuli hafa tekið þátt í þessu (þau skrifuðu víst undir samninginn eftir að hafa lesið upphaflega handritið, en ekki ruslið sem var svo unnið úr því).

Michael Clarke Duncan er í örlitlu hlutverki og er fullkomlega sóað. Sama má segja um Steve Buscemi sem þó fær mig alltaf til að brosa.

Það er bara of mikið um rökvillur og aðra Bay'isma í þessarri mynd til að hægt sé að njóta hennar.

Eyddu frekar peningunum í jógúrtdollu, sú ánægja endist lengur.

Ein stjarna fyrir Scarlett... tveggja klukkustunda kyrrmynd af henni væri betri en þessi ræma.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
War of the Worlds
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þvílík vonbrigði... úff.

David Koepp ætti að skjóta á færi.

Dúndur hasar og margar flottar senur eru drepnar með klisjukenndum og leiðinlegum persónum, klisjukenndum og illa skrifuðum samböndum. Það er erfitt að hafa samúð með persónum þegar manni líkar ekki við þær. Frá fyrstu mínútu var mér slétt sama hvort Cruise og hans fjölskylda kæmist lífs af og þar með var spenningurinn úr myndinni. Sonurinn var einn pirringur frá upphafi til enda. Svo er ég persónulega orðinn ansi þreyttur á því hvað Spielberg er með brotin heimili á heilanum... hann er sjálfur skilnaðarbarn, sem hefur mótað allan hans feril - ég er það líka en það kemur ekki fram í öllu sem ég geri. Skyldi hann einhvern tíma gera mynd þar sem fjölskylda hangir saman? Ég vona það allavega...

Dakota Fanning, sem er að mínu mati besta leikkona í Hollywood miðað við þyngd, stendur sig mjög vel og stendur fullkomlega jafnfætis Cruise (sem sýnir hérna mjög góðan leik).

Leikur, leikstjórn, klipping og kvikmyndataka eru fyrsta flokks. Öll tæknivinna er frábær, tæknibrellur, hljóðbrellur, sviðsmynd og förðun... allt fyrsta flokks.

En það sem drekkir myndinni er handónýtt handritið eftir David Koepp.

Vil ekki fara út í nein smáatriði hérna, þar sem ég þykist viss um að fólk hérna vilji sjá myndina og ætla ég að virða það, þó ég geti ekki mælt með myndinni fyrir neitt annað en sjónræna og hljóðræna hlutann, því handritið er afleitt.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Hitchhiker's Guide to the Galaxy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Með leiðinlegri myndum sem ég hef séð.

Mjög sorgleg meðferð á annars ágætlega silly efni.

Marvin The Robot var jú ágætur.



Vil helst sem minnst um hana segja, því ég hef á tilfinningunni að fólk sé búið að ákveða það nú þegar hvort það fer eða ekki og lítið sem ég get sagt sem breytir því. Ég veit að það verður líka fullt af fanboys sem fara á hana og 'elska' hana, bara af því að þeir voru búnir að ákveða það fyrirfram og geta ekki fengið sig til að játa að efnið var eyðilagt... ekki að það hafi verið auðvelt að búa til kvikmynd eftir því.



Þeir sem lásu bækurnar hafa eflaust aðeins meira gaman af myndinni en aðrir - en það er líka séns að þeir hati hana enn meira en aðrir.

Því miður stendur myndin ekki undir sér sjálf og virkaði á mig eins og lélegur barnaskólahúmor. Kannski er ég bara orðinn of gamall fyrir svona dellumyndir.

Trailerinn var miklu betri.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Sin City
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sin City fór langt fram úr mínum vonum.

Kannski ekki mikið sem þurfti þar sem ég hef aldrei litið á Robert Rodriguez sem alvöru leikstjóra... Það sem hefur Sin City yfir allt sem komið hefur frá honum fram að þessu, er hráefnið. Myndasagan Sin City eftir Frank Miller er hér lifandi komin - og með sama útlit og myndasagan, alveg niður í staka myndaramma. Textaramminn sem sagði söguna og bjó til andrúmsloftið í myndasögunni er hérna sem voice over.

Þetta er kannski ekki 'best picture' mynd, en ekki allar myndir þurfa að vera það. Þessi er stílísk, skemmtileg, blóðug, ofbeldisfull og umfram allt, verulega cool.

Tæknivinnslan er mjög góð. Nánast hver einasta sena var skotin á 'green screen' og umhverfið svo búið til með tölvu í kringum leikarana. Tókst mjög vel og býr til fullkomið 'fake' umhverfi (þ.e.a.s. Sin City verður til en er ekki einhver alvöru borg að þykjast vera Sin City, ef svo má að orði komast).

Allavega... frábær mynd, flott og skemmtileg. Ég ætla aftur á morgun :P
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Spanglish
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Svo bregðast krosstré sem önnur... James L. Brooks sem hingað til hefur verið áreiðanlegur leikstjóri góðra mynda sem bæði eru mjög fyndnar og ylja manni líka um hjartaræturnar, hefur hér gert mynd sem erfitt er að sætta sig við að sé frá sama manni og As Good as it Gets og Terms of Endearment.

Leiðinleg, yfirborðskennd, sjálfumglöð og preachy. Þetta eru þau lýsingarorð sem ég vil helst nota um þessa mynd.

Persónan sem Adam Sandler leikur er svo góð og jákvæð og dásamleg að það hálfa væri óraunhæft. Svona persónur eru einfaldlega ekki til í heiminum. Tea Léoni leikur konuna hans, sem er einhver mest óþolandi persóna sem sést hefur í kvikmynd síðustu ár. Sem því miður var ætlunin. Það er útilokað að nokkrum líki vel við þá persónu og þar liggur einmitt rótin að vandamálinu við þessa mynd. Brooks hefur hér gert mynd þar sem hann ákveður hvernig manni á að líka við persónurnar og reynir svo að neyða áhorfendur til þess.

Paz Vega, sem leikur heimilishjálpina frá Mexíkó er guðdómlega falleg og var í raun eina ástæðan fyrir því að ég nennti að klára myndina. Cloris Leachman sem leikur drykkfelldu ömmuna á heimilinu er mjög skemmtileg, en vandfundin er skemmtilegri leikkona af hennar kynslóð, svo það kom lítið á óvart.

Ég get ekki mælt með þessarri mynd og gef henni eina og hálfa stjörnu bara út á Cloris Leachman, Paz Vega og fyndnustu fullnægingu (Tea Léoni á hana) sem ég hef séð síðan Meg Ryan í When Harry Met Sally...

En í heildina er hún varla þess virði að bíða eftir að hún komi á RÚV.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Polar Express
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jólaklassík. Það er til marks um hversu vel heppnuð þessi mynd er sem jólamynd, að hún er enn númer 4 á listanum yfir aðsóknarmestu myndirnar hverja helgi, 6 vikum eftir frumsýningu og jólahelgin sjálf er eftir. Nær ekki fyrir kostnaðinum í bíó, en mun án efa komast í plús á DVD sölu, auk þess sem hún mun líklega koma aftur í bíó á hverjum jólum hér eftir. Ég var svo heppinn að sjá þessa mynd í IMAX bíói í þrívídd með póleruð gleraugu og fínerí (ekki rauða/bláa draslið, heldur tvær myndir, ein fyrir hvort auga sem aðgreinast með póleruðum gleraugum). Fyrir þá sem ekki vita það, þá er IMAX filmuramminn 10 sinnum stærri en venjuleg 35mm filma og því gífurlega hrein mynd með ótrúlegum smáatriðum, sýningartjaldið á við 10 hæða hús og fyllir alveg út í sjónarsvið manns, 12.000 W hljóðkerfi með 44 hátölurum, ljósið úr sýningarvélinni myndi sjást með berum augum frá jörðinni væri vélin staðsett á tunglinu svo það er sæmilega björt mynd á tjaldinu og er ótrúlega flott á að horfa. Eins góð og hún er í venjulegu bíói, er hún óviðjafnanleg í IMAX-3D. Tom Hanks fer á kostum í fimm hlutverkum. Hann leikur lestarstjórann, litla strákinn og pabba hans, heimilislausa manninn og svo sjálfan jólasveininn. Allt gert með motion-capture, sem í fyrsta sinn notast við 'performance capture', þar sem andlitshreyfingar leikaranna eru teknar upp á sama tíma og líkamshreyfingarnar. Hreyfingarnar teknar inn í tölvu og þar er hægt að tengja þær við hvaða tölvulíkan sem er, þannig að hver sem er getur leikið hvern sem er. T.d. er hugsanlegt að Humphrey Bogart skjóti upp kollinum í bíómynd í framtíðinni, endurskapaður á þennan máta... þetta er ekki endilega bundið við teiknimyndir. Jólaleg jólamynd er nokkuð sem hefur ekki tekist að búa til lengi. Flestar verða ofurvæmnar klisjur eða þá hundleiðinlegar og tilgerðarlegar. Þessi er skemmtileg og nær fullkomlega töfrum jólanna eins og þau eru í augum barna. Það liggur við að mann langi til að trúa á jólasveininn aftur eftir þessa mynd... Mæli hiklaust með henni fyrir alla fjölskylduna. Það væri bara óskandi að Íslendingar fengju að njóta hennar í þrívídd líka.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ocean's Twelve
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Settu heilann í hlutlausan gír, ekki spá of mikið í handritinu, njóttu þess bara að horfa á fallega fólkið á tjaldinu skemmta sér og þá muntu líklega njóta þessarar myndar. Myndin sjálf er hvorki fugl né fiskur, en er ágætis afþreying. Leikararnir eru hálfglottandi megnið af myndinni, eins og þetta sé allt saman einn stór innanhússbrandari... sem myndin er í rauninni ef út í það er farið... það vantar bara að þeir líti í myndavélina og blikki mann. Óvænti endirinn var augljós frá fyrstu stundu, en það skemmdi ekki mikið fyrir... Þetta er hálfdrættingur á við fyrri myndina, en þar sem þessi var eingöngu gerð fyrir tvær ástæður, peninga og afþví allir höfðu gaman af því að gera þá fyrri, þá er það nú viðbúið. Svona allt-í-lagi ræma, ekkert meira.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Million Dollar Baby
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hér er hún loksins komin. Myndin sem allir voru að bíða eftir, en enginn vissi af. Þetta er sannkallað meistarastykki og er ekki bara besta myndin sem ég hef séð á árinu, þetta er besta mynd sem ég hef séð í mörg ár og er ein af þeim bestu sem ég hef séð um ævina og hef ég nú séð töluvert margar góðar myndir. Clint Eastwood er eins og eðalvín. Hann verður betri með aldrinum. Hér er á ferðinni besta mynd hans frá upphafi. Hann hefur aldrei leikið betur og aldrei leikstýrt betur. Það væri ósanngjarnt að segja mikið frá söguþræðinum, því hann kemur á óvart og ég er feginn því að hafa ekki vitað um hann áður en ég sá myndina. Uppsetningin er einföld, gamall boxþjálfari (Eastwood) tekur að sér að þjálfa þrítuga konu (Hilary Swank), þvert ofan í eigin vilja, eftir áeggjan vinar síns og samstarfsmanns (Morgan Freeman). Þessi uppsetning kann að hljóma klisjukennd, en geysisterkt handritið eftir Paul Haggis forðast allar klisjur og tekur stefnu sem enginn á von á. Eastwood sýnir fádæma aga í leikstjórninni og gefur sér tíma til að kynna persónurnar og sambönd þeirra, sem gefur myndinni mjög mannlegan blæ og við lærum margt um hvers konar manneskjur hver persóna hefur að geyma, sem spilar mikið inn í niðurlag myndarinnar. Ég skammast mín ekkert fyrir að játa að ég grét á þessarri mynd. Merkilegt nokk hef ég ekki grátið yfir bíómynd síðan Mystic River, sem var síðasta mynd Eastwood. Má segja að fáir leikstjórar sýni jafn góðan skilning á mannlegu eðli og Clint Eastwood hefur gert undanfarið. Hann sagði í viðtali fyrir nokkrum dögum að í hvert sinn sem hann ætlar að setjast í helgan stein, kemur eitthvað gott efni upp í hendurnar á honum og hann getur ekki hætt. Warner Brothers vildi í fyrstu ekki fjármagna myndina. Eastwood sagði þeim að hann myndi gera þessa mynd hvort sem þeir tæku þátt í því eða ekki og leitaði því annað og fékk að lokum 50% fjármögnun frá Lake Shore Entertainment, sem varð til þess að Warner Brothers útvegaði afganginn, bara út á það hvað Eastwood hafði verið lengi hjá þeim. Þegar þeir svo loksins fengu að sjá myndina og komust að því að hann væri með meistarastykki í höndunum, þá varð uppi fótur og fit um það hvernig ætti að markaðssetja til að reyna að fá Óskarsverðlaun. Eastwood sagði þvert nei á allar svoleiðis auglýsingar og heimtaði að myndin yrði eingöngu sýnd gagnrýnendum áður en hún færi í almenna dreyfingu, hann vildi að myndin stæði á eigin fótum og að orðspor myndarinnar yrði sterkasta sölutrikkið. Hann veit hvað hann syngur og fáar myndir hafa haft jafn gott orðspor (word of mouth er það kallað) undanfarin misseri eins og þessi mynd. Ég mæli með því að þú sjáir þessa mynd eins fljótt og auðið er, áður en eitthvað af leyndarmálum myndarinnar spyrjast út. Stór hluti af lífsreynslunni sem þessi mynd veitir, er óvissan um það hvað gerist næst.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Fahrenheit 9/11
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Bravó!

Þetta var fyrsta orðið sem ég hafði í huga þegar ég gekk út af miðnætursýningu á Fahrenheit 9/11 aðfaranótt Föstudagsins 25. Júní.

Eftir 2 klst. af magnaðri kvikmyndagerð var endirinn einhver sá langflottasti sem ég hef séð á heimildarmynd fyrr og síðar.


Það breytir litlu hvar þú stendur í pólitík, þú getur ekki neitað því að hér er á ferðinni listavel gerð heimildarmynd.

Ég tek það fram strax að ég er að mestu sammála því sem í henni er sagt, þó svo Michael Moore hafi átt það til að teygja sannleikan aðeins til að þóknast skoðunum sínum áður fyrr. En hann lærði af þeim mistökum og þar sem hér er mun meira í húfi, fer hann mun varlegar í fullyrðingum og er passasamur að hafa staðfestanlegar staðreyndir sér til fulltingis. Hvort fólk er svo sammála því sem hann gerir með þær staðreyndir er svo annað mál.

Margir sem eru ósammála myndinni láta öllum illum látum og reyna allt sem þeir geta til að draga úr þessarri mynd. Meðal annars hafa hægri sinnuð samtök hér í landi kært Michael Moore fyrir kjörnefnd og vilja að hann verði skikkaður til að hætta auglýsingum á myndinni eftir 30. júlí, ellegar verði hann að fylgja reglum um hámarksupphæðir sem einstaklingar og fyrirtæki meiga nota til styrktar ákveðnum frambjóðendum.

Staðreyndin er auðvitað sú að Repúblíkanar eru skíthræddir. Þeir vita að myndin sýnir daufum almúganum hvers konar spilling er í gangi í Washington og þeir vita líka að ef fólk sem ekki hefur gert upp hug sinn enn sér þessa mynd með opnum huga, eru góðar líkur á að viðkomandi ákveði að kjósa ekki repúblíkana í ár.


Margir skammast yfir því að hún sé einhliða og sé því áróður. Fyrir þá sem trúa því, hef ég þetta að segja: ALLAR heimildarmyndir hafa sjónarhorn. Michael Moore hefur aldrei farið leynt með pólitískar skoðanir sínar eða skoðanir sínar á Bush og hans hyski og því er ekki hægt að segja að þetta sé áróður, þegar sjónarhorn myndarinnar er öllum ljóst fyrirfram.


Það er svo sem ekkert 'nýtt' í myndinni, sem ekki hefur komið fram á öðrum vetvangi - þá aðallega í bókum - en Michael Moore setur þær upplýsingar fram með áhrifaríkari hætti en ég man eftir að hafa nokkru sinni séð í heimildarmynd.

Áhorfendur fara í gegnum allan tilfinningaskalann eins og hann leggur sig. Hlátur, grátur, vonbrigði, vorkunn, vantrú, örvænting, hræðsla, hörmung, eftirsjá og reiði. En umfram allt situr eftir í manni vilji til að kjósa inn nýtt fólk til að uppræta þessa spillingu. Ég er ekki með kosningarétt hér í BNA, þar sem ég er ekki bandarískur ríkisborgari. En mikið lifandis skelfing vildi ég fá að kjósa í Nóvember til að fá að taka þátt í að úthýsa þessum glórulausa apaketti sem í dag situr í embætti Forseta Bandaríkjanna.

Tengsl hans og hans fjölskyldu við Sádí Arabíu og konungfjölskylduna þar eru vafalaust einhver mesta ógn sem stafað hefur að Bandaríkjunum frá því fyrir fall Sovétríkjanna. Michael Moore rekur þessi tengsl, viðskipti þeirra og samskipti gegnum árin og skoðar þá sérstöðu sem Sádí Arabía nýtur í Washington vegna þeirra.

Það gerir hann á mjög áhrifaríkan hátt með því að nota eingöngu staðfestanlegar heimildir, svo ekki sé hægt að saka hann um lygar eða áróður (Hvíta Húsið sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis að myndin væri tómar lygar og áróður ÁN ÞESS AÐ NOKKUR ÞAR HEFÐI SÉÐ HANA, sem segir manni töluvert um það hversu hræddir þeir eru).


Hvert skot er vel valið og samsetning þeirra er nánast óaðfinnanleg, eins og Michael Moore einum er lagið. Hvert skot þjónar ákveðnum tilgangi og ekkert er sýnt án þess að það hafi eitthvað með viðfangsefnið að gera.

Tónlistin er mjög góð og oft á tíðum skemmtilega viðeigandi, eins og þegar hann fjallar um að Bush hafi horfið frá þjónustu sinni í Texas National Guard án leyfis snemma á áttunda áratugnum, þá heyrist gamla Clapton lagið Cocaine undir.


Við fáum að sjá stríðið í Írak frá allt öðru sjónarmiði en fjölmiðlar hafa látið frá sér og er ljóst að fjölmiðlar hafa gersamlega brugðist þeirri skyldu sinni að vera varðhundar lýðveldisins. Þeirra hlutverk er að spyrja stjórnvöld erfiðra spurninga einmitt til að koma í veg fyrir spillingu sem þessa. Eftir 11. September 2001, viku allar svoleiðis spurningar fyrir rassakyssingum og fánaveifingum.

Moore sýnir einnig fram á hvernig ríkisstjórn George W. Bush notfærði sér 11. September á pólitískan hátt til að koma í gegn ólögum, sem og til að réttlæta innrásina í Írak.


Það einfaldasta sem ég get sagt um þessa mynd, fyrir utan Bravó, er farðu að sjá hana.

Þessi mynd ÞARF að koma í sjónvarp og ætti hreinlega að vera sýnd í skólum.

Ég er viss um að einhver les þessi orð mín og hugsar já, en þú þolir ekki Bush og því ertu fyrirfram ánægður með myndina.

Það er rétt að ég þoli ekki Bush, en það breytir því ekki að þessi mynd er feykilega vel gerð og gífurlega áhrifamikil. Pólitískum andstæðingum Bush er svo sem ekki hlíft í þessarri mynd. Þeir fá að heyra það líka, fyrir að hafa látið þennan dóna vaða yfir sig á grútskítugum skónum.

Hreint frábær mynd sem allir verða að sjá.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hellboy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Fór á forsýningu á þessarri mynd í lok Mars.

Skemmtileg mynd með skemmtilegum persónum, þó hún sé nú meingölluð að hluta.

Leikstjórinn Guillermo Del Toro var á staðnum og var honum vel fagnað, þó ekki nálægt því eins og Mike Mignola, sem er höfundur myndasögunnar sem myndin er byggð á. Ég hafði aldrei lesið myndasögurnar, en eftir að hafa kynnst persónunum skildi ég vel hvers vegna Mignola var vel fagnað, því persónurnar eru mjög skemmtilegar og gaman að fylgjast með.


Myndin byrjar í síðari heimsstyrjöldinni þar sem Nasistar (alltaf vel nothæf illmenni í myndasögum sem og kvikmyndum) eru að opna hlið milli jarðar og helvítis, í þeirri von að þar nái þeir einhverju sem getur hjálpað þeim að ná heimsyfirráðum.

Það þarf ekki að segja mikið um það, annað en að það mistekst, en áður en hliðinu er lokað á ný komst lítill rauður púki með hala, í gegnum hliðið og til jarðar. Hann er gómaður af Bandarískum vísindamanni sem tekur hann að sér.

Í dag er púkinn fullvaxinn og gengur undir nafninu Hellboy. Ron Perlman fer á kostum í hlutverkinu og er augljóst að hann hafði mjög gaman af þessarri persónu.

Abe Sapien, sem nefndur er Abe þar sem hann fæddist daginn sem Abraham Lincoln var drepinn, er hálfur maður og hálfur fiskur (ekki spyrja). Doug Jones leikur hann í þeim atriðum sem hann er ekki tölvuteiknaður (skora á ykkur að sjá hvort er hvað), en David Hyde Pierce (Niles í Frasier) ljær honum rödd sína og er það gríðarlega skemmtilegt leikaraval.

Það er skemmtilegt samband milli Hellboy og Liz (Selma Blair) sem er kona sem getur kveikt í sér að vild án þess að verða meint af... verst að hún hefur ekki nægilega stjórn á þessum hæfileika og hafa nokkrar byggingar legið í valnum þegar hana dreymir illa.

Eitt illmennanna er þýskt vélmenni, fullt af sandi og með eitthvað sem lítur út fyrir að vera hundrað ára gamall klukkugangráður fyrir hjarta, sem þarf svo að trekkja öðru hverju. Skemmtilegt hugmyndaflug þar á ferðinni...


Fyrri hluti myndarinnar, þar sem persónur eru kynntar og forsaga og persónutengsl eru sett upp, tekst svakalega vel og sagan var athyglisverð. Því miður fannst mér hún leysast upp í hálfgerða vitleysu í seinni hlutanum, sem er soldið skondið, svona ef maður hugsar út í að maður var áður búinn að samþykkja púka, mannfisk, þýskt vélmenni fullt af sandi, svona fyrir utan tilvist helvítis sem ég hef aldrei trúað á.

Slímug skrímsli hafa alltaf virkað illa á mig (nema í Aliens) og voru hálf fáránleg hérna. Svo var aldrei útskýrt hvernig illmennin ætluðu að nota einhverja risa smokkfiska frá helvíti til að ná heimsyfirráðum... kannski áttu þeir bara að vera notaðir sem ógnun, hver veit.

Þrátt fyrir gallana verður spennandi að sjá hvort fleiri myndir verða gerðar um Hellboy. Hann og aðrar persónur myndarinnar eru nægilega skemmtilegar og samböndin milli þeirra nægilega góð til að mig langi tli að sjá meira af þeim.

En slímugu skrímslin meiga alveg hverfa mín vegna.

Mæli með henni, en hef samt nokkrar efasemdir... held hún sé ekki beint fyrir alla.

Þrjár stjörnur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Kill Bill: Vol. 2
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

VÁÁÁ!


Ég var mikill aðdáandi fyrri hlutans og bjóst því við miklu af seinni hlutanum. En ekki átti ég von á að hann væri enn betri en sá fyrri. Þessi mynd er algert meistarastykki. Gargandi snilld frá A til Ö. Tveir þumlar upp og stóru tærnar líka.


Að vísu hefði ég gjarnan viljað fá að sjá myndina alla í einum óklipptum hluta... það verður víst að bíða þar til DVD diskurinn kemur út.


Tarantino er stílisti mikill og hefur augsýnilega geysilega gaman af því sem hann gerir... Hann elskar bíómyndir (sérstaklega frá áttunda áratugnum) og hann elskar kvikmyndagerð þess tíma. Meira en það, hann nýtur þess að fá lánað frá kvikmyndum áttunda áratugarins. Margar beinar og óbeinar tilvísanir má finna í myndum hans og Kill Bill myndirnar eru engin undantekning. Meir að segja það sjónvarpsefni sem sést er útpælt, þó það sé út úr fókus í bakgrunninum. Tónlistin þjónar líka tilgangi og sem og áður skrifar hann lög inn í handritið sem hann vill að heyrist í senunum.


Tarantino hefur gífurlegt auga fyrir smáatriðum og það er fjöldinn allur af hlutum í myndunum hans sem fólk kannski tekur ekki eftir, en þeir hafa leynda merkingu og gefa persónunum dýpt sem kannski fer annars framhjá fólki.

Bíllinn í bílskúrnum hjá Bill sjálfum er ekki á skjánum nema nokkra ramma en hann gefur nýja vídd á karakterinn. Jafnvel nöfnin á köflunum sem myndin er skipt upp í eru þaulhugsuð og geta haft fleiri en eina merkingu... þá bókstaflegu og svo myndlíkingu sem maður fattar kannski ekki fyrr en kaflanum er lokið.


Ofbeldið er mikið, þó það sé mun minna en áður og alls ekki eins blóðugt. Mun meira er lagt upp úr samskiptum persónanna og er myndin mun heilsteyptari en fyrri hlutinn, eða kannski virkar hún bara þannig af því að maður er búinn að sjá þann fyrri. Allavega fannst mér þessi standa betur á eigin fótum.


Kvikmyndataka Robert Richardson er sem fyrr óaðfinnanleg og lýsingin er hrein unun á að horfa. RR er einn af þeim bestu.


Leikstjórn Quentin Tarantino er mjög góð og hvert sjónarhorn vel valið og úthugsað. Sem fyrr nær hann frábærum leik út úr leikurum sínum og Uma Thurman og David Carradine hafa aldrei verið betri. Ég gæti trúað að Carradine fái Óskarstilnefningu næsta vor fyrir leik sinn hér, sem er djúpur, yfirvegaður og sýnir mikinn skilning leikarans á persónunni. Uma Thurman er ekki bara betri en hún hefur áður verið, heldur er hér á ferðinni einhver besta kvenkyns hasarhetja kvikmyndasögunnar.

Persóna hennar, sem við fáum að vita hvað heitir, en ekki fyrr en það er komið að því að kynna hennar persónu í flashback atriði (fram að því er nafnið hennar bípað, líkt og í fyrri hlutanum) er mjög sterkur kvenkyns karakter, sterkur OG kvenlegur á sama tíma. Í þessarri mynd fáum við að sjá mun viðkvæmari hlið hennar, en líka sterku hliðina sem við sáum í þeirri fyrri. Ég held að Ripley hafi hér með fallið niður í annað sætið yfir kvenkyns hasarhetjur.


Myndin er mjög fyndin á köflum og stundum frekar óhugguleg, en alltaf gríðarlega skemmtileg. Ég sat með krónískt glott allan tímann og hef sjaldan notið kvikmyndar eins og ég naut Kill Bill Vol. 2.


Myndin byrjar á brúðkaupinu sem endaði svo illa 4 árum áður, þar sem við fáum betri baksögu og kynnumst persónunum enn betur en í fyrri hlutanum.


Sem og í fyrri hlutanum, var Heba Þórisdóttir förðunarmeistari myndarinnar og stendur sig með miklum sóma. Það er eitt atriði þar sem ein persóna myndarinnar er með bitför í andlitinu (ég er ekki að ljóstra neinu upp hérna, atriðið er óvænt og skýrir sig sjálft) og þau eru mjög raunveruleg og var ekki að sjá að um förðun væri að ræða. Fjöður í hattinn þar.


Ég vona að Tarantino bíði ekki í önnur 7 ár eftir að gera aðra mynd.


Ég veit varla hvað ég á að segja. Ég naut þessarrar myndar innilega, frá fyrsta ramma til hins síðasta. Myndin var þétt og leið mun hraðar en fyrri hlutinn, þó hún sé um 15 mínútum lengri.


Sjáið þessa mynd.

Enn betra: Sjáið Volume 1 á DVD og farið svo beint á þessa.

Nú þegar ég hef séð þessa, ætla ég einmitt að sjá Vol.1. aftur og fara svo aftur á þessa.

Fjórar stjörnur.Fullt hús stiga.10 í einkunn.Bravó!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Passion of the Christ
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þar sem þessi mynd veldur miklum deilum meðal áhorfenda (sem og annarra) þá vil ég byrja á því að taka það fram að ég er trúlaus maður og skráði mig úr þjóðkirkjunni fyrir löngu síðan. Ég lít á biblíuna svipuðum augum og Þjóðsögur Jóns Árnasonar... Munnmælasögur sem gengu mann fram af manni (og stundum bara fram af manni) í margar kynslóðir áður en þær voru skráðar niður. Sumar eiga sér einhverjar rætur í raunveruleikanum en aðrar ekki. Flestar voru svo ritskoðaðar og endursagðar af kirkjunni um aldir, þar sem hún vildi ekki að í henni væri eitthvað sem mælti gegn þeim reglum sem hún setti þegnum sínum til að hafa betri stjórn yfir þeim.




Ég efast ekki um að Jesús hafi lifað og verið merkilegur heimspekingur á sínum tíma, en hann gerði ekki brot af því sem honum er eignað. Hann var ekki sonur guðs, hann var sonur Jóseps. Hann var góðhjartaður, velmeinandi trésmiður, ekki frelsari gyðinga. Þetta er vitaskuld það sem ég trúi. Aðrir hafa fullan rétt til að vera mér ósammála.






Eftir þennan formála vil ég líka taka fram að þetta er ansi hreint mögnuð mynd.




Ég hef sagt vinum mínum að það besta sem ég get sagt er að sem trúlaus maður fannst mér aldrei sem verið væri að prédika yfir mér. Það sem fólk trúir þegar það fer inn, trúir það þegar það kemur út. Þeir sem hata gyðinga, eru ekki líklegir til að finna ástæðu til að hætta því, en á sama tíma eru þeir sem ekki hata gyðinga ekki líklegir til að finna ástæðu til þess heldur. Ég er í seinni hópnum og tel marga þeirra til vina minna. Ég sé heldur enga ástæðu til þess, jafnvel þó farið sé eftir biblíunni, hvað sem gyðingahatarar segja.




Ef fólk sem gagnrýnir myndina hefði fyrir því að lesa það sem það er að prédika og hefði fyrir því að sjá myndina fyrst, þá væri þetta ekki vandamál... svona fyrir utan að samkvæmt kristinni trú þá kom Jesú til jarðarinnar til þess eins að deyja fyrir syndir okkar allra. Það var bara hlutverk gyðinganna sem réðu að vera verkfæri guðs til að hrinda því í framkvæmd (ég endurtek: samkvæmt biblíunni, ég trúi ekki á þetta dæmi).




Hér í BNA hefur verið mikið írafár útaf þessarri mynd og trúarsöfnuðir og kirkjur hafa keypt upp heilu bíóin til að reyna að nota þessa mynd sem trúarboðsverkfæri, sem er nokkuð sem ég held að virki ekki.




Mel Gibson er geysisterkur leikstjóri og hefur náð mjög miklu valdi á myndmálinu sem kvikmynd býður uppá. Hann hefur sér hér til fulltingis kvikmyndatökumanninn Caleb Deschanel sem býr yfir mikilli snilligáfu. Hver rammi í myndinni er eins og listaverk sem hægt væri að ramma inn og hengja upp á vegg, auk þess sem lýsing og sjónarhorn henta hverri senu nánast fullkomlega og eykur á áhrif myndarinnar.




Leikur Jim Caviezel í hlutverki Jesú er góður, þó hann samanstandi nú einna mest af því að vera laminn til óbóta, ganga með kross á bakinu á meðan hann er laminn meira og vera svo festur á kross. En allt í allt stendur hann sig mjög vel og er sannfærandi í sínu hlutverki.




Maia Morgenstern sem leikur Maríu móður hans stendur sig best í myndinni að mínu mati. Hún fylgir syni sínum síðustu ævistundirnar og tekur öllu með útvortis ró, en innvortis þjáningum (geysilega erfitt að leika).




Mig skal ekki undra að María Magdalena hafi freistað Jesú, ef hún leit út eins og Monica Bellucci.






Hvort sem fólk er trúað eða ekki, er þetta mynd sem ég mæli með því að fólk sjái. Trúaðir geta vissulega litið á hana sem trúarlegs eðlis, á meðan trúlausir geta gert eins og ég, farið á hana með sama hugafari og Lord of the Rings (eins og þetta sé fantasía byggð á skáldsögu).




Ég vil samt vara fólk við ofbeldinu í myndinni. Þetta er einfaldlega ofbeldisfyllsta mynd sem ég hef nokkurn tíma séð og hef ég nú séð talsvert um ævina.




Hvað sem kirkjan ykkar segir, þá er þetta alls ekki mynd fyrir börn. Ef þið viljið að börnin kynnist sögunni, þá geta þau vel lesið hana. Þegar þau hafa náð 16 ára aldri, þá geta þau ákveðið sjálf hvort þau vilja sjá hana, en ég mæli ekki með því að foreldrar fari með börnin sín á hana (kannski niður í 12 ára í fylgd foreldra en alls ekki yngri).




Niðurstaðan er þrjár og hálf stjarna.




Mynd sem ég mæli með en vara jafnframt við á sama tíma.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Monster
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hvað er hægt að segja um Charlize Theron sem ekki hefur verið sagt áður?

Hún er gífurlega falleg, sjarmerandi og hefur skemmtilega útgeislun sem skilar sér vel á hvíta tjaldinu.

Ekkert af ofantöldu skiptir máli í þessarri mynd.


Aileen Wuornos var þjóðvegamella í Florida sem tók upp á því að myrða viðskiptavini sína. Hún myrti 7 menn á tiltölulega skömmum tíma og var að lokum handtekin, sakfelld, dæmd til dauða og lifði í 12 ár á dauðadeild Florida þar til hún var tekin af lífi í Október 2002.


Já, þetta er sönn saga.


Charlize Theron er hér í hlutverki Wuornos og ég tel að ég taki ekki of stórt upp í mig ef ég fullyrði að hún fái Óskarsverðlaunin í ár, enda er hér á ferðinni einhver sá svakalegasti leikur sem ég hef séð í bíómynd fyrr og síðar.

Hún er með öllu óþekkjanleg í myndinni, ekki bara vegna þess að hún fitaði sig um 15 kíló og er með mikið bíó makeup og gervitennur sem breytir útliti hennar algerlega, heldur vegna þess að ég hafði það aldrei á tilfinningunni að ég væri að horfa á leikkonu leika hlutverk. Þetta var einfaldlega Aileen Wuornos, lifandi á tjaldinu fyrir framan mig og allar tilfinningar og viðbrögð voru ekta. Jafnvel minnstu líkamshreyfingar... Horfið í augun á henni. Þetta er ekki Charlize Theron. Það sem gerist í þessarri mynd var eins og ég væri að horfa á það gerast fyrir framan mig, sem mjög oft var mjög óþægilegt sökum efniviðarins. Í myndinni eru jú morð, nauðgun, ofbeldi af öðru tagi og annað óhugnanlegt.


Fyrsta manninn drap hún í sjálfsvörn, allavega samkvæmt þessarri mynd, sem fer þó örlítið lauslega með söguþráðinn, enda ekki aðrir til frásagnar um það sem raunverulega gerðist en Aileen Wuornos sjálf (ekki lengur, reyndar). Hina 6 drap hún fyrir peningana þeirra, bílinn þeirra, eða bara til að hylja slóð sína.


Ég hélt aldrei að ég ætti eftir að upplifa það að horfa á sannsögulega bíómynd um fjöldamorðingja, þar sem ég kenndi í brjósti um morðingjann... En eins og þessi mynd er sett upp, þá er erfitt að finna ekki til með henni. Lífið leikur sumt fólk mjög grátt. Þrátt fyrir að það fólk taki rangar ákvarðanir, stundum aftur og aftur, þá er það engu að síður manneskjur með tilfinningar.


Það er margt fallegt í þessarri mynd, sem kann að hljóma ótrúlega. En ástarsamband Wuornos og Selby (Christina Ricci, sem sýnir sinn besta leik hér) var mjög saklaust en ástríðufullt. Báðar þörfnuðust ástar og umhyggju og fundu hvora aðra. Tvær týndar sálir.

Wuornos upplifir ást í fyrsta skipti á ævinni (upplifði hana ekki einu sinni í æsku) og dauðhrædd um að missa hana gerir allt sem hún telur sig þurfa að gera til að halda í hana. Því miður tekur hún margar rangar ákvarðanir sem hafa alvarlegar afleiðingar.


Allir þeir sem njóta bíómynda sem sitja í manni, sem og unnendur góðs leiks hreinlega verða að sjá þessa mynd. Ekki láta ykkur koma á óvart þó einhver gangi út af myndinni, enda eru margar senurnar mjög erfiðar á að horfa. En þeir sem sitja til enda, sitja flestir í myrkrinu í nokkrar mínútur að ná áttum eftir að myndinni lýkur og nafnalistinn rennur yfir skjáinn.

Mynd sem ekki má missa af.


Charlize Theron tók þátt í framleiðslu þessarrar myndar eftir að leikstýran Patty Jenkins nánast grátbað hana að taka að sér hlutverkið. Hún sagðist vilja láta taka sig alvarlega sem leikkonu og að þetta gæti verið tækifæri til þess. Ég held ekki að hún þurfi að hafa miklar áhyggjur af því hér eftir, því hún er nú kominn efst á A-Listann í Hollywood.

'Leiklistarskólar eiga eftir að sýna þessa mynd í tímum og leikkonur munu stúdera þennan leik um komandi kynslóðir. Maður sér aldrei leikara ná jafn mikilli dýpt í leik sínum eins og Charlize Theron nær hér í þessarri snilldarlega leiknu mynd.' sagði sjálfur Dustin Hoffman eftir sýningu myndarinnar á AFI Film Festival sem var hérna í Desember.

Stór orð það. Kvikmyndagagnrýnandinn virti Roger Ebert sagði að leikur Theron væri 'einn besti leikur kvikmyndasögunnar' og þar erum við að tala um mann sem hefur séð 20.000 myndir eða eitthvað álíka. Enn stærri orð. En svo ótrúlegt sem það kann að hljóma, þá er þetta líklega rétt hjá þeim báðum.


Fjórar stjörnur. Myndin hefur vitaskuld sína galla eins og aðrar myndir, en ég ætla ekki að fara út í þá hér, heldur ætla ég bara að mæla eindregið með henni, en vara fólk jafnframt við innihaldinu, því það næst ekki auðveldlega úr höfðinu á eftir...
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Cold Mountain
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þvílík og önnur eins leiðindi. Úff, bara.

Sá þessa mynd á forsýningu hérna fyrir jólin og hef varla beðið þess bætur. Kannski smá ýkjur hjá mér, en samt, myndin var óheyrilega leiðinleg og langdregin.


Anthony Minghella, hefur gert ágætis mynd áður í formi The Talented Mr. Ripley, en á samt heiðurinn að leiðinlegustu mynd sem ég hef séð fyrir utan þessa mynd, sem var The English Patient, sem af einhverju óskiljanlegum ástæðum (kannski útaf auglýsingaherferðum Miramax) sópaði til sín 9 Óskarsverðlaunum á sínum tíma.


Sagan í Cold Mountain, sem byggð er á samnefndri bók, er löng, fyrirsjáanleg og tilgerðarleg með meiru. Hún fjallar um ferð liðhlaupa heim til sín eftir að hann strýkur úr hernum. Ástæðan fyrir liðhlaupinu var ástarsamband hans við Nicole Kidman, sem væri kannski skiljanlegt ef það væri trúverðugt til að byrja með, en því miður sögðu þau varla tíu orð hvort við annað áður en hann fór og kysstust aðeins einu sinni. Menn svíkja varla föðurlandið fyrir svoleiðis. En mörgum þykir þetta víst æðislega rómó. Ekki mér. Something's Gotta Give var mun meira rómantísk en þetta rusl.


Leikstjórnin fannst mér ferleg. Ég sá fyrir mér tilgerðarlegan mann að rembast við að reyna að gera einhverja merkilega mynd úr ómerkilegu efni. Eins og honum finnst gaman að gera, hefur þessi mynd ógurlega mikið af löngum skotum þar sem lítið sem ekkert gerist. Það á víst að vera voðalega mikið innsæji í svoleiðis skotum. Mér finnst það bara sýndarmennska sem þjónar engum tilgangi og kemur sögunni ekkert áfram.


Leikurinn var ósannfærandi. Nicole Kidman, sem annars er frábær í öllum hlutverkum, fellur hér á andlitið og er algerlega ósannfærandi sem suðurríkjamær. Eina 'ekta' suðurríkjamærin í myndinni, Renée Zellweger (sem er frá Texas) var svo pirrandi og óþolandi að ég var hreinlega að vonast til þess að persóna hennar yrði drepin sem fyrst... og þar sem ég hef alltaf verið hrifinn af Zellweger þá er þar mjög mikið sagt, en því miður varð mér ekki að ósk minni. Hún var fyndin í u.þ.b. 30 sekúndur og svo var það búið... bara pirringur eftir það.

Jude Law var mjög ósannfærandi og öll hans reiði og tilfinningar virtust koma úr hálsinum. Ég sá ekkert í augum hans sem seldi senurnar... ekkert. Þetta var bara Jude Law í leikbúningi.

Philip Seymore Hoffman bjargar algerlega þeim atriðum sem hann var í og var frábær, eins og hann er vanur.

Natalie Portman kom mjög á óvart og stóð sig geysilega vel í erfiðu en annars frekar illa skrifuðu hlutverki.

Kathy Baker stóð vel fyrir sínu, enda á ferðinni sjóuð en vanmetin leikkona.


Kvikmyndatakan er ágæt, vaselínsmurðar linsurnar reyna að fegra allt og gefa því svona rómantískan blæ, en í mynd sem reynir líka að fjalla um borgarastyrjöld, liðhlaup og vonsku manna í stríði, þá bara gengur það ekki alveg upp.


Þetta er ein af þessum myndum sem reyna að vera öllum allt en mistekst á flestum sviðum. Minghella, sem fékk óskarsverðlaun fyrir Enska Sjúklinginn (sem er mér illskiljanlegt), færist hér of mikið í fang og hreinlega hrasar og missir allt út úr höndunum. Endirinn var svo fyrirsjáanlegur að hann hefði varla verið meira fyrirsjáanlegur þó hann hefði verið auglýstur með skjáauglýsingu áður en myndin byrjaði. Fyrir þá sem vilja endilega sjá þessa mynd, þá ætla ég ekki að segja frá honum hér, enda munu þeir hinir sömu víst sjá hann fyrir nægilega fljótt hvort eð er.


Myndin er tæknilega vel unnin, (fyrir utan eitt makeup skot af Jude Law sem var svo hræðilega lélegt að það reif mig út úr myndinni) en það er nákvæmlega ekkert í henni sem situr eftir.


Eins og lesendur er vafalaust farið að renna í grun, þá var þetta ekki uppáhaldsmyndin mín árið 2003. Reyndar er þessi mynd á listanum mínum yfir verstu myndir ársins...


Hjá mér er semsagt niðurstaðan ein stjarna af fjórum, fyrir ágæta tæknivinnslu og þessa aukaleikara sem stóðu sig vel. En Minghella verður að passa sig að líta ekki of stórt á sig. Hann er enginn David Lean.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Terminator 3: Rise of the Machines
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Æ, ég vildi svo óska að ég hefði meira jákvætt að segja...

En því miður er þessi mynd frekar rýr. Vantar algerlega James Cameron við stjórnvölinn.


Það er jú hasar frá upphafi til enda (engar ýkjur) og margar senurnar eru mjög flottar, en myndin er líkari vélmenninu hans Arnold heldur en manneskju, því hún er sálarlaus.

Mannlegi þátturinn sem var í fyrstu tveim, vantar hér alveg. Það er komið aðeins inn á þau áhrif sem vitneskjan um framtíðina hefur á aðalpersónuna, John Connor, en þegar upp er staðið var mér eiginlega alveg sama... Handritið var bara ekki sterkara en svo að persónan skipti mig nokkru máli.


Það koma nokkrar athyglisverðar hugmyndir um framtíðina, fortíðina, nútíðina og það hvort hægt sé að breyta rás sögunnar, en mér fannst úrvinnslan ekki mjög góð og langt frá því að hafa sama neista og fyrri tvær myndirnar.


ÉG REYNI AÐ FORÐAST ALLT SEM GETUR SPILLT MYNDINNI, EN GLÖGGIR LESENDUR GÆTU LESIÐ SPOILERA ÚT ÚR ÞESSARRI MÁLSGREIN, SVO STÖKKTU YFIR HANA EF ÞÚ VILT EKKI TAKA SÉNSINN Á ÞVÍ.

Þó ég hafi verið mjög ósáttur við endirinn, verð ég að gefa kvikmyndagerðarmönnunum hrós fyrir að þora að láta hann frá sér. Ég vil ekki spilla neinu fyrir þeim sem ætla að sjá hana, svo ég læt vera að segja annað en það að James Cameron hefði aldrei látið þetta frá sér. Því þrátt fyrir að hann sé hugfanginn af tækni, þá er mannlegt eðli og mannssálin honum alltaf ofar í huga og ávallt er vonarglæta, sem skín ávallt í gegn í myndunum hans.

Ég var líka ósáttur við að myndin endar eins og það sé búið að ákveða að gera fleiri Terminator myndir... veit ekki á gott... mér finnst eins og það eigi að reyna að búa til eitthvað franchise úr þessu eins og SpiderMan eða Batman...


JÆJA, EKKERT MEIRA SEM GÆTI HUGSANLEGA SPILLT FYRIR ÖÐRUM.


Þegar allt kemur til alls er þetta þokkaleg sumarmynd, með miklum hasar og flottum tæknibrellum. Hún er líka mjög fyndin sem kom mér soldið á óvart. En hún er slappt framhald af Terminator röðinni.


Kristanna Loken, er mjög myndarleg kona og gaman að horfa á hana. En því miður er hún svo freðin og svipbrigðalaus að Arnold er eins og Óskarsverðlaunahafi við hliðina á henni. Ég geri mér grein fyrir að hún á að vera kalt vélmenni, en Robert Patrick, sem lék T-1000 í Terminator 2, gaf vélmenninu sínu smá persónuleika og sýndi smá svipbrigði. Loken gerir nákvæmlega ekkert sem ekki hefði verið hægt að gera með tölvuteikningu, eða jafnvel brúðu... Hún hefur nákvæmlega sama svipinn allan tímann. Það var reyndar mjög viðeigandi að hún birtist fyrst í búðarglugga innan um gínur...


Nick Stahl og sérstaklega Claire Danes eru fín í sínum hlutverkum. Verst að persónurnar eru ekki betur skrifaðar.

Ég reyndar hefði frekar viljað sjá Edward Furlong halda hlutverki John Connor áfram. En þetta sleppur fyrir horn.


Það eru nokkrar senur sem vísa svolítið í fyrstu tvær myndirnar, sem er jú í lagi sem slíkt, en það var eins og væri verið að minna mann á að þetta sé framhald af þeim.


Tæknibrellur og hasar eru aðall myndarinnar, með slatta af húmor í bland. Margar senur þar sem ég hló upphátt.


Minn dómur: tvær stjörnur. Ég get ekki mælt með þessarri mynd fyrir þá aðdáendur Terminator myndanna sem hrifust af sögunni, persónunum eða vísindaskáldskapnum. En ég mæli með henni fyrir þá sem hafa gaman af hasar, sprengingum eða flottum brellum.


Eflaust verða margir ósammála mér, en þannig gengur það bara...

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Finding Nemo
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hrein snilld. Besta mynd ársins hingað til.


Ég vissi ekki hverju ég mátti búast við þegar ég settist í sætið mitt í bíóinu. Ég vissi að hún gæti ekki orðið léleg þar sem PIXAR gerði hana, en var samt ekki viss um að neðansjávarheimurinn myndi virka á stóra tjaldinu.

Sem betur fer voru það óþarfa áhyggjur því myndin virkar fullkomlega.

Handritið er þétt, mjög fyndið og fer þessa hárfínu leið sem höfðar bæði til barna og fullorðinna á mismunandi hátt án þess að það trufli hvort fyrir öðru. Trúið mér þegar ég segi að það er ekki auðvelt að segja svoleiðis sögu.

Allar persónur myndarinnar eru skemmtilega skrifaðar og hafa greinilega persónuleika utan sögusviðs myndarinnar. Handritahöfundarnir hafa þetta alveg á hreinu, enda sami hópur og hefur skrifað flestar myndir Pixar.

Handritahöfundurinn og leikstjórinn Andrew Stanton var annar tveggja leikstjóra á A Bugs Life (annar tveggja leikstjóra hér líka, ásamt Lee Unkrich) og hefur hann líka átt þátt í handriti allra mynda Pixar frá upphafi og því ljóst að þar er gríðarlega hæfileikaríku einstaklingur á ferð.


Leikhópurinn er frábær. Allar raddirnar passa mjög vel í hlutverkin og allir standa sig mjög vel, enda hópur fagmanna á ferð. Albert Brooks hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og hann leikur pabba Nemo mjög skemmtilega. Ellen Degeneres kom á óvart og var mun betri en ég átti von á.


Það er líka gaman þegar maður veit hvernig leikararnir líta út, því dýrin sem þau ljá raddir sínar, líkjast þeim ef vel er að gáð. Teiknararnir nefnilega hafa myndbandsupptökur af leikurunum í stúdíóinu til viðmiðunar þegar þeir eru að búa til andlitsdrætti og hreyfingar.


Ég veit að talsetningar á Íslandi eru fyrsta flokks (margverðlaunaðar af Disney) og ég vona svo sannarlega að jafn vel verði staðið að þessarri. Ég mæli samt með því að unnendur teiknimynda, Pixar mynda, eða bara góðra mynda, kíki líka á hana með ensku tali.


Ég skemmti mér konunglega yfir myndinni. Hún er falleg utan sem innan, spennandi og mjög fyndin. Frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna.


Þetta er það sem kaninn kallar Instant Classic.

Þessi fer beint í DVD safnið.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Road to Perdition
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hvað er hægt að segja? Besta mynd ársins hingað til.

Frábær leikur í hvívetna. Paul Newman hreint stórkostlegur og gæti hreinlega fengið Óskar næsta vor fyrir aukahlutverk.

Tom Hanks er hér í óvenjulegu hlutverki leigumorðingja fyrir Írsku mafíuna í Chicago á fjórða áratugi síðstu aldar sem er á flótta með son sinn, þar sem hann reynir að hefna fjölskyldu sinnar, en á sama tíma reynir að forða syni sínum frá því að feta í fótspor sín. Hann sýnir hérna einn besta leik sinn á annars frábærum ferli.

Kvikmyndatakan er svo flott að ég er í vandræðum með að finna nógu sterkt lýsingarorð. Nokkuð öruggt að Conrad L. Hall fær Óskarinn næsta vor. Það hreinlega stenst ekki tölfræðilega að tvær myndir geti komið út á sama árinu með svona rosalega flotta myndatöku. Minority Report er líklega sú sem kemst næst. Ég hélt ekki að nokkur mynd myndi slá Minority Report út á þessu ári, en hér er hún samt komin.

Sam Mendes, sem fékk Óskar fyrir sína fyrstu mynd, American Beauty sýnir hér að það var ekkert slys. Slær ekki feilnótu hér frekar en þá.

Það er eiginlega voða lítið sem ég get sagt um þessa mynd annað en 'Farðu í bíó!'

Fyrir fólk sem fer bara einu sinni í bíó á ári, þá er þetta myndin til að sjá.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Signs
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mjög góð, róleg og allt öðru vísi en þú átt von á.

M. Night Shamalan er að sýna að hann er 'the next big thing' eins og þeir kalla það hérna í Ameríkunni. Reyndar gengur Newsweek svo langt að kalla hann 'the next Spielberg'.

Hvað sem fólki finnst um þá nafngift, þá er engin spurning að hann er einstakur sögumaður. Sixth Sense er enn hans besta mynd, Unbreakable olli talsverðum vonbrigðum þó hugmyndin væri góð og frásagnarmátinn góður. Hér er Shamalan aftur í góðu formi og sýnir að hann er kominn til að vera. Hugmyndin á bakvið myndina er nokkuð snjöll, en er í raun bara farartæki fyrir þau skilaboð sem myndin hefur fram að færa. Undir niðri liggur ákveðin hugmynd sem er ekki ýtt fram í sviðsljósið heldur er hún meira notuð til að útskýra þær breytingar sem verða á persónu Mel Gibson í myndinni.

Myndin varpar fram fleiri spurningum en hún svarar og er ég þess nokkuð viss að margir munu vera fúlir yfir því. Við þá aðila segi ég: það þarf ekki alltaf að útskýra allt í smáatriðum. Stundum er betra að láta áhorfandann draga sýnar eigin ályktanir og það er einmitt það sem Shamalan er snillingur í að gera.

Söguþráðurinn, sem ég ætla ekki að fara út í, er rólegur, en þó nokkuð spennandi á köflum.

Ég fer ekki mikið út í smáatriði, vil helst forðast það, sérstaklega þegar um er að ræða mynd eins og þessa, sem hver áhorfandi ætti að upplifa sjálfur án þess að hafa fyrirfram mótaðar hugmyndir.

Mér finnst líka rétt að geta þess að tónlistarleysið sem vinur minn Vilhelm benti á er sérlega góð hugmynd. Yfirleitt þegar maður horfir á verksmiðjuframleiddar myndir frá Hollywood, þá er tónlistin oft til þess að undirstrika hvernig maður _ætti_ að upplifa atriðin, en hérna er tónlistarleysið einmitt til að gera áhorfandann forvitinn um það hvað sé í raun og veru að gerast og upplifir maður atriðin á allt annan hátt.

Ég get hiklaust mælt með þessarri mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Men in Black II
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

'Margur verður af aurum api' segir gamalt íslenskt máltæki. Sjaldan hefur það átt jafn vel við og hér. Þessi mynd er bersýnilega gerð eingöngu með það í huga að þéna peninga og þeir sem að henni stóðu, fyrir framan myndavélina sem aftan, hafa eingöngu tekið þátt í gerð hennar útaf tékkanum sem væntanlega hefur verið stór.

Handritið er nánast ekkert, hugmyndasnautt og innantómt. Það er með blendnum tilfinningum sem maður horfir á jafn flotta leikara og Tommy Lee Jones fara í gegnum svona mynd. Maður veit ekki alveg hvort maður á að vorkenna honum fyrir að vera fastur í þessu, eða missa virðingua fyrir að hafa látið hafa sig út í þetta.

Leikstjórnin er afleit og virðist blessaður Sonnenfeld ekki hafa haft hugmynd um hvað myndin var. Honum er þó smá vorkunn því það er ljóst að handritshöfundum var það ekki heldur (reyndar var handritið ekki tilbúið þegar tökur hófust, sem yfirleitt veit ekki á gott). Þar af leiðandi er um að ræða mynd sem hefur engan fókus og engan tilgang og er þar af leiðandi sóun á hæfileikum allra sem að standa.

Will Smith sem stóð sig vel sem Ali í fyrra, er hérna álíka lifandi og frosinn íslenskur Ali hryggur. Tommy Lee Jones, sem alltaf er góður, gerir það sem hann getur til að halda reisn, þó á endanum sé þetta ljótur blettur á annars ágætum ferli.

Talandi hundófétið úr fyrri myndinni er hér i mun stærra hlutverki og átti eina hláturinn sem myndin náði út úr mér (eitt annað fyndið atriði, sem sýnt var í sýnishorninu svo það telst ekki með).

Þessi eina stjarna sem ég gef myndinni er fyrir Rosario Dawson... hún á betra skilið en svona rusl.

Skyldi ég geta fengið miðann endurgreiddan?
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Minority Report
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hrein snilld. Besta mynd Spielberg í ég veit ekki hvað mörg ár.

Það er erfitt að fjalla um myndina án þess að segja frá söguþræðinum sem mér finnst annars aldrei eiga að gera í umfjöllunum. Sumt þarf maður bara að sjá sjálfur.

Hugmyndin að myndinni er smásaga uppá 31 síðu eftir Philip K. Dick, sem er einhver mest paranoiaði höfundur vísindaskáldsagna sem um getur. Það kemur ágætlega í ljós í þessarri sögu, sem gerist árið 2054 þar sem Pre-Crime (stofnun á vegum dómsmálaráðuneytisins sem notfærir sér 3 einstaklinga sem hafa þá náðargáfu að geta séð morð fyrir) eltir uppi væntanlega morðingja og handtekur þá áður en þeim tekst að fremja morðið. Kerfið hefur virkað fullkomlega og ekki hefur verið framið morð í Washington D.C. í 6 ár þegar myndin byrjar.

Þegar topp Pre-Crime löggan (Tom Cruise) verður sjálfur eftirlýstur fyrir morð sem hann hefur ekki enn framið, snýst dæmið aðeins við.


Myndin er ekki bara stórkostlegt sjónarspil, heldur er hún líka geysilega sterk ádeila á stefnu heimsins í áttina að gereyðingu einkalífs. Augnskannar lesa augnmynstrið og þekkja þig hvar sem þú ert og beinir auglýsingum beint til þín. Þetta kerfi er auðvitað notað af lögreglunni (og þar með ríkinu) til að vita hvar þú ert hverju sinni og því er ekkert lengur til sem heitir friðhelgi einkalífsins.

Útlit myndarinna er magnað. Ég held mér sé óhætt að fullyrða að Janusz Kaminski sé besti kvikmyndatökumaður sem er starfandi í dag. Lýsing og litasamsetning er ólík öllu sem sést hefur frá Spielberg hingað til og líkist helst Film-Noir myndum frá fimmta áratugnum, en litirnir hjá Kaminski setja mjög sérstakan blæ á 'framtíðina'. Sjónarhorn eru valin af mikilli nákvæmni og segja söguna nákvæmlega eins og Spielberg vill að hún sé sögð og gefur áhorfandanum alltaf örlítið meira til kynna en sést á tjaldinu.

Spielberg virðist hafa fundið 'dökku hliðina' sína og það er hrein unun að sjá hvernig hann höndlar hana.

Það eru reyndar nokkrir hnökrar í handritinu undir lokin sem skemmdu soldið fyrir, en maður er tilbúinn að líta framhjá svoleiðis þegar á heildina er litið. Engin mynd er fullkomin, en þessi kemst skelfilega nálægt því.


Ah, svo má ekki gleyma tæknibrellunum. Þær eru stórfenglegar, en undirstrika á sama tíma muninn á Spielberg og vini hans George Lucas. Spielberg notar tæknina til að segja sögur, á meðan Lucas notar sögurnar til að sýna tæknina. Tæknibrellurnar hérna eru svo frábærar að maður gleymir því nánast strax að það séu brellur í myndinni og bara samþykkir það sem þær sýna sem raunveruleikann í þessum annars falska heimi kvikmyndaranna.


Semsagt, frábær skemmtun sem fær áhorfendur til að hugsa, hvað er hægt að biðja um meira?
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Patriot
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þvílíkt og annað eins. Í fyrsta lagi er hann enginn 'patriot' því hann er ekki að berjast fyrir land sitt, heldur til að hefna sonar síns. Þar að auki byrjar myndin á því að hann mælir gegn því að fara í stríð. Þvílíkur föðurlandsvinur! Í annan stað, eru bardagaatriðin ekki skugginn af þeim sem voru í Braveheart og í hvert sinn sem einhver líkir þessarri mynd við það meistaraverk verð ég alltaf móðgaður fyrir hönd allra þeirra sem að henni stóðu. Þessi eru óspennandi af tveim megin ástæðum: persónurnar eru illa skapaðar og maður hefur enga samúð með þeim og klipping og leikstjórn gerir þau ruglingsleg og ólógisk. Í þriðja lagi er handritið afleitt. Formúlusamloka með klisju á milli. Kannski ekki við öðru að búast frá Robert Rodat sem skrifaði hið afleita handrit að Saving Private Ryan (sem hefði betur heitið Saving Private Rodat, því án snilldar Spielbergs hefði myndin aldrei orðið jafn mögnuð og raun bar vitni og ferill Rodat's hefði aldrei komist á flug). Til að nudda salti í sárin eru tæknibrellurnar ekkert merkilegar, alltaf mjög auðsjáanlegar og í sumum tilfellum eiginlega hálf-unnar. Það var ekkert mál að sjá hvaða aukaleikarar voru raunverulegir og hverjir voru settir inná með tölvu. Það er svo margt sem angrar mig við þessa mynd. En þó er eitt sem stendur langt uppúr. Ég sá hljóðnema koma niður á tjaldið fjórum sinnum! Fyrst hélt ég að sýningarstjórinn hefði rammað myndina vitlaust á tjaldið, en þegar hljóðneminn var svo neðarlega að Mel Gibson hefði verið hauslaus á tjaldinu hefði það verið ástæðan, þá rann það upp fyrir mér að þetta voru engin mistök. Það hefði verið nær að eyða nokkrum þúsundköllum í að þurrka þá út með tölvu, og sleppa frekar nokkrum skotum sem voru óþarflega langdregin, nú eða nokkrum skotum í bardagaatriðunum sem gerðu lítið fyrir söguna, en virtust bara eiga að vera 'kúl' (eins og fallbyssukúlan sem spilar Keilu við mótherjana). Það er ekkert sem rífur mann jafnfljótt út úr þeim heimi sem kvikmyndin á annars að skapa, en að sjá kvikmyndabúnaðinum bregða fyrir á tjaldinu. Sér í lagi þegar myndin gerist um 120 árum áður en kvikmyndin var fundin upp... Ein stjarna fyrir virkilega flotta lýsingu og kvikmyndatöku.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei