Gibson er blóðfaðir – bjargar dóttur sinni!

Braveheart leikarinn og leikstjórinn Mel Gibson er hægt og sígandi að láta aftur meira að sér kveða í Hollywood.  Bæði er væntanleg mynd frá honum sem leikstjóra, Hacksaw Ridge, með Spiderman leikaranum Andrew Garfield í aðalhlutverki, og önnur þar sem hann leikur aðalhlutverk.

Þar er um að ræða spennutrylli eftir Jean-Francois Richet, Blood Father, eða Blóðfaðir, í lauslegri snörun, en fyrsta stiklan úr myndinni var að koma út. Það má segja að Gibson feti þarna í fótspor Liam Neeson í Taken myndunum, þar sem hann þarf að bjarga dóttur sinni úr klóm illmenna .

Blood-Father-2

Gibson leikur í myndinni fyrrverandi fanga sem kemur dóttur sinni til bjargar þegar hættulegir dópsalar gera hana að skotmarki sínu.

Erin Moriarty leikur dóttur Gibson, en kærasti hennar, sem er dópsali, kemur á hana sök fyrir að stela hárri fjárupphæð. Hún og hinn misheppnaði faðir hennar, neyðast til að leggja á flótta, og Gibson neyðist sömuleiðis til láta þorparana finna duglega til tevatnsins.

William H. Macy og Elisabeth Rohm leika einnig í myndinni.

Frumsýningardagur hefur ekki verið ákveðinn í Bandaríkjunum, en myndin verður frumsýnd í Ástralíu, heimalandi Gibson, 25. ágúst nk.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: