Góðmenni breytist í blóðþyrsta vampíru

Ný stikla fyrir Morbius, nýju myndina úr Marvel heimi Sony kvikmyndaversins, ofurhetjuheimi þar sem kvikmyndirnar eiga allar að tengjast Köngulóarmanninum með einhverjum hætti, er komin út.

Blóðþyrstur.

Aðrar myndir í þessum heimi eru til dæmis Venom: Let there be Carnage og væntanleg Spider-Man mynd, Spider-Man: No Way Home sem kemur í bíó á næsta ári.

Jared Leto leikur titilhlutverkið en aðrir leikarar eru m.a. Matt Smith, Adria Arjona, Jared Harris, Al Madrigal og Tyrese Gibson.

Umbreyting.

Morbius segir frá lífefnafræðingnum Michael Morbius sem reynir að lækna sjálfan sig af sjaldgæfum blóðsjúkdómi. Óafvitandi sýkir hann sjálfan sig í staðinn af einskonar vampírusjúkdómi.

Læknar sjúka

Miðað við það sem fram kemur í stiklunni er Morbius góðmenni sem læknar sjúka þar til hann fer í heimsókn í leðurblökuhelli, og þá verður fjandinn laus. Eftir það er Morbius í stöðugri innri baráttu þar sem vampíruskepnan vill brjótast út og drepa mann og annan. Þessvegna er Morbius af mörgum talinn vera ein brjóstumkennanlegasta persónan í Marvel heiminum. Hann læknast af blóðsjúkdómi en í staðinn er hann nú orðinn vampíra og þyrstir stöðugt í blóð.

Leto í ham.

Undir öllu saman hljómar Doors lagið People are Strange.

„You Save Lives, You don´t take them“, eða „þú bjargar mannslífum, þú drepur ekki menn“, segir ein persónanna í myndinni sem reynir að koma vitinu fyrir vampíruna, sem nú er orðin nær algjörlega stjórnlaus.

Morbius kemur í bíó 28. janúar nk.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: