Gravity að slá í gegn í USA

Það tók leikstjórann Alfonso Cuaron og Warner Bros kvikmyndafyrirtækið nærri fimm ár að búa til geimmyndina Gravity, en svo virðist sem þessi langa bið hafi borgað sig og vel það fyrir kvikmyndaverið, þar sem myndin er að slá í gegn í miðasölunni í Bandaríkjunum þessa helgina.

gravity

Miðað við aðsókn á myndina í gær, föstudag, þá stefnir í að myndin þéni 50 milljónir Bandaríkjadala yfir helgina alla, sem þýðir að myndin yrði tekjuhæsta mynd Sandra Bullock á frumsýningarhelgi frá upphafi.

„Ég skildi ekki hvernig þeir ætluðu að klára þetta,“ sagði Bullock nýlega í viðtali við Variety kvikmyndaritið, um framleiðslu myndarinnar.

Bullock og George Clooney, eru einu leikararnir sem sjást í myndinni, en einnig kemur við sögu Ed Harris. Hann er stjórnandi á jörðu niðri, en þau Bullock og Clooney eru svífandi úti í geimnum.

Myndin fjallar um lækni, sem Bullock leikur, og geimfara, sem Clooney leikur, sem reyna að lifa af úti í geimnum eftir að þau losna frá geimstöðinni eftir slys sem verður í stöðinni.

Myndin er sú mynd á þessu ári sem hefur verið að fá hvað besta dóma gagnrýnenda.

Myndin, sem er skrifuð af Cuaron sjálfum og syni hans Jonas, gæti orðið tekjuhæsta mynd á frumsýningarhelgi í Bandaríkjunum í október frá upphafi.  Metið á Paranormal Activity 3; 52 milljónir dala.