Grunn en vönduð

Mér finnst erfitt að ímynda mér að það sé nokkur maður til í heiminum sem líkar ekki vel við Ólaf Darra. Hann er holdgervingur þjóðargerseminnar ef um íslensku leikarastéttina er að ræða (eða geðþekkt mannfólk almennt!). Hann er stór og mikill bangsi og þar af leiðandi er nóg pláss fyrir stóru orðin. Snillingur. Yndi. Gull af manni. Mögnuð rödd. Persónulegt uppáhald. Og allir sem berja Djúpið augum eiga einungis eftir að hafa jákvæðari hluti um hann að segja. Þetta er hans mynd. Baltasar er í öðru sæti.

Vitaskuld er Balti eitt ef ekki allra stærsta þjóðarstoltið í dag (a.m.k. hvað þennan bransa varðar), sem mér hefur fundist pínu sérstakt vegna þess að fáir þykir mér kvikmynda landið okkar á eins óaðlaðandi máta. Þótt ég hafi sjálfur verið misjákvæður í garð hans mynda er alveg öruggt að segja að hann sé búinn að vinna sér fyrir kórónunni upp á síðkastið. 101 Reykjavík finnst mér enn vera besta myndin hans og er athyglisvert að sjá að hann skýtur enn heimalandið eins og það sé kaldasti, dimmasti og mest niðurdrepandi staður sem hægt er að festa á filmu. Þessi kuldalega áferð finnst mér hafa einkennt langflestar myndirnar hans og hefur mér gengið illa að tengja mig við þær á tilfinningalegu stigi. Contraband var ég samt mjög ánægður með og tel hana vera öflugustu þróun leikstjórans frá upphafi, en sú mynd telst ekki með í þessari umfjöllun vegna þess að Djúpið fór í framleiðslu á undan henni. Hins vegar er þetta ein af hans vönduðustu myndum. Líka með þeim betri, þó að það sé ekki beinlínis marktæk setning í mínu tilfelli.

Guðlaugur Friðþórsson er/var kannski ekki sjálfur sammála því, en magnaða lífsreynsla hans og þrek er frábært efni í kvikmynd. Saga þessa manns er ekkert annað en ótrúleg en það skiptir öllu máli hvernig hún er sögð á bíótjaldi svo hægt sé að réttlæta kvikmyndaútgáfuna. Þetta kemur beint helsta vandamáli myndarinnar við. Eftir ágætisbyrjun og frábæra miðju (frá og með slysinu þangað til Guðlaugur tekur sundið og pínir sig alla leið yfir oddhvasst hraun) byrjar maður að finna fyrir því að „straightforward“ nálgunin á sögunni er kannski ekki alveg sú besta. Þegar aðall sögunnar er að baki virkar myndin frekar stefnulaus og áhrifalaus. Mikilvægustu kaflarnir á sjónum og hrauninu eru ótrúlega vel meðhöndlaðir. Það er grípandi að fylgjast með Darranum og átakanlegt í senn, en allt sem kemur ekki líkamlegu erfiði við skarar aldrei neitt sérstaklega fram úr og gleymist þar af leiðandi frekar auðveldlega. Fókusinn á eldgosið árið ’73 kom reyndar þrælvel út.

Að sundinu loknu spyr maður sig gjarnan: „Ókei, hvað svo?“ Og þessi línulega uppbygging er alls ekki að fela það hversu (kaldhæðnislega) grunn Djúpið er. Það vantar alla persónusköpun til að styrkja dramað, hjá bæði aðalpersónunni og þessum auka. Þemun eru athyglisverð en sjaldan er kafað út í þau af einhverju viti. Ef handritið hefði hallast meira að eins konar karakterstúdíu og kannað betur spurningarnar sem vakna upp (t.d. „hvernig rannsakar maður kraftaverk?“) hefði þetta getað orðið að einni albestu íslensku kvikmynd sem sögur fara af. Efnið er allt saman kröftugt og nett einstakt en síðan þræðist þetta allt saman í undarlega einfalda bíósetu sem heldur manni við sætið en togar aldrei í hjartaræturnar.

Tæknivinnslan er eitt það besta við myndina. Það kemur á óvart hversu glæsilega þetta klassíska Balta-litaleysi styður við umfjöllunarefnið og er rosalegt hversu raunverulegar erfiðustu senurnar eru, með engri aðstoð tölvubrellna til dæmis. Á þessum stöðum er maður fluttur beint á staðinn, sem er klikkað! Leikurinn er fantagóður úr öllum áttum en Ólafur er 100% fullkominn sem „Sundlaugur“, þrátt fyrir að vera næstum því helmingi eldri en hann á að vera. Ef ég hefði einhverja trú á Edduverðlaununum myndi ég segja einhverjum að henda einni styttu í leikarann á stundinni, en ég held að það verði ekki vandamál þegar að því kemur. Ef hann fær allavega ekki einhvers konar viðurkenningu fyrir rulluna mun ég annaðhvort hringja reið símtöl eða búa til verðlaunastyttu handa honum persónulega, úr leir og álpappír. Án Ólafs væri engin mynd og ef innihaldið hefði jafnast á við það sem hann leggur á sig fyrir hlutverkið, þá væri myndin álíka meiri háttar og frammistaðan. Í staðinn er hún bara nokkuð góð. Vel þess virði að sjá, en hefði getað orðið betri.


(7/10)