Hannes svarar spurningum netverja um Ja Ja Ding Dong

Leikarinn Hannes Óli Ágústsson hefur vakið heldur betur mikla (og verðskuldaða) athygli fyrir túlkun sína á hinum ákafa Olaf Yohansson í gamanmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga. Fólki víða um heim þykir Olaf bráðfyndinn og þá sérstaklega fyrir vægast sagt æstan og einlægan áhuga sinn á laginu Ja Ja Ding Dong.

Nýverið var gefið út myndband á YouTube-síðunni Netflix Film Club þar sem Hannes Óli svarar spurningum netverja um allan heim og les upp skemmtileg tíst.

Hannes segir meðal annars frá því hversu mikil upprisa hefur verið í eftirhermum á tónleikum á Íslandi, þar sem margir hverjir kalla eftir spilun á laginu umrædda – í stíl við herra Yohansson sjálfan.

„Ég bið öll [söngvara og hljómsveitir] sem lent hafa í þessu innilegrar afsökunar,“ segir Hannes.

Sjón er sögu ríkari, en myndbandið má sjá hér að neðan ásamt (að sjálfsögðu) Ja Ja Ding Dong

… í tíu klukkutíma.

Af hverju tíu klukkustundir?

Nú, Olaf útskýrir það best.