Hefur byrjað oftar en flestir hnefaleikamenn

Breski Downton Abbey: A New Era leikarinn Allen Leech segir í samtali við breska blaðið The Telegraph að meðleikkona hans í fyrri myndinni og sjónvarpsþáttunum sem myndirnar eru byggðar á, Maggie Smith, 87 ára, hafi sagt þegar tökum lauk á fyrri myndinni, þar sem eru síðustu andartök persónu Smith í sögunni, að hún vildi að það yrði hennar síðasta verkefni sem leikkonu. En síðan tökum lauk á myndinni hefur hún verið ráðin í tvær kvikmyndir til viðbótar. „Hún hefur byrjað aftur að vinna, eftir að hafa lagt leikinn á hilluna, oftar en flestir hnefaleikamenn,“ segir Leech í gríni.

Downton Abbey: A New Era var frumsýnd í gær í íslenskum kvikmyndahúsum.

Leech leikur Tom Branson í Downton Abbey: A New Era og er hér ásamt Tuppence Middleton sem leikur Lucy Smith.

Síðustu atriðin sem Smith lék í í fyrri myndinni voru jafnframt fyrstu atriðin sem Leech lék í. Smith sagði Leech við það tækifæri að hún væri hrifin af net-jarmi (e. memes) en þeim deilir hún gjarnan í WhatsApp spjallhópi með Michelle Dockery og Laura Carmighael, sem leika Mary og Edith í myndunum. „Hún elskar kattajarm sérstaklega,“ segir Leech.

Leech var tuttugu og níu ára þegar hann var ráðinn í Downton Abbey þættina, en á þeim tíma hafði hann í sig og á með skólphreinsun í Lundúnum.

Leech hefur nú leikið Tom í tólf ár í þáttunum og bíómyndunum. Blaðamaður The Telegraph spyr leikarann hvort það eigi eftir að reynast honum erfitt að hrista Tom úr blóðinu. „Alveg pottþétt, segir Leech. „En það góða við Downton var að tökur stóðu aðeins yfir í sjö mánuði á ári, þannig að ég fékk góðan tíma til að gera aðra hluti.“ ( Hann lék til dæmis hlutverk í The Imitation Game og Bohemian Rhapsody.“

Harry Hadden-Paton (sem Bertie Pelham), Laura Carmichael (Lady Edith), Tuppence Middleton (Lucy Smith) og Allen Leech (Tom Branson).

Spurður um möguleikann á þriðju Downton myndinni segir Leech að enginn hafi talað um aðra myndina þegar verið var að taka þá fyrstu. „Við erum aðeins hér vegna þess að áhorfendur kusu með fótunum.“

Fjórar stjörnur af fimm

Downton Abbey: A New Era fær fjórar stjörnur af fimm mögulegum í The Telegraph en myndin þykir líflegri og fágaðri en fyrirrrennarinn frá árinu 2019.