Heiðraði Boseman með Black Panther lagi

Söngkonan Rihanna hefur gefið út fyrsta lag sitt í sex ár og segir leikstjóri Black Panther: Wakanda Forever, Ryan Coogler, að hún hafi gert það til að heiðra leikarann Chadwick Boseman sem lék Black Panther í fyrstu myndinni. Leikarinn lést af völdum krabbameins fyrir rúmum tveimur árum síðan.

„Satt að segja þá held ég að það hafi verið Chad,“ sagði hann við BBC. „Það þurfti margt að smella saman til að þetta yrði að veruleika og ég held að hún hafi gert þetta fyrir hann.“

Lagið, sem heitir Lift Me up, hljómar í Black Panther: Wakanda Forever sem kemur í bíó ellefta nóvember nk.

„Við vissum að Rihanna var á þeim punkti í lífi sínu þar sem hún þurfti að einbeita sér að öðrum hlutum – viðskiptum og móðurhlutverkinu, sem er stórt þema í kvikmyndinni. Við vonuðumst eftir að þetta gæti gengið eftir og það gerði það svo sannarlega.“

Sænskur höfundur

Stjórn upptöku var í höndum sænska tónskáldsins Ludwig Göransson sem einnig átti þátt í að semja lagið. Hann samdi tónlistina fyrir Black Panther og einnig fyrir myndirnar Creed, Venom og Tenet.

Aðrir höfundar lagsins eru Rihanna, Coogler og nígeríski söngvarinn og lagahöfundurinn Tems, sem hefur áður unnið með Drake, Justin Bieber, Future, Wizkid, Beyonce og Khalid.

Sjáðu lagið hér fyrir neðan og þar fyrir neðan nýtt kynningarmyndband fyrir Black Panther: Wakanda Forever: