Hercules: Fyrsta stiklan

Fyrsta stiklan er komin fyrir myndina Hercules: The Legend Begins með Twilight leikaranum Kellan Lutz í titilhlutverkinu, en myndinni er leikstýrt af finnska hasarmyndaleikstjóranum Renny Harlin, sem þekktur er fyrir myndir eins og Die Hard 2, Cliffhanger og The Long Kiss Goodnight.

hercules

Þetta er önnur af tveimur Hercules myndum sem eru væntanlegar, en hin er Hercules: The Thracian Wars með Dwayne Johnson, The Rock, í aðalhlutverki, og leikstjóri þeirrar myndar er Brett Ratner.

Ásamt Lutz leika í Hercules: The Legend Begins þau Liam McIntyre, Gaia Weiss og Scott Adkins.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:

Miðað við stikluna fær fólk hér ýmislegt fyrir peninginn; sverðabardaga, dramatík, ástir og örlög og goðsagnir.

Myndin kemur í bíó í mars á næsta ári.

Söguþráðurinn er eftirfarandi: Í Grikklandi til forna, árið 1200 fyrir Krist, lætur drottningin undan losta Seifs, og verður ófrísk og fæðir honum son sem ætlað er að steypa af stóli kóngi sem stjórnar með harðri hendi, og færa aftur frið í landið.

En barnið, prinsinn, veit ekkert um hver faðir hans er, og hver hann er sjálfur í raun og veru.  Hann hefur aðeins áhuga á einu; að vinna ástir Hebu, prinsessu af Krít, sem hefur verið lofuð bróður hans.

Þegar Hercules áttar sig á því hver hann er í raun og veru þá verður hann að velja á milli þess að flýja með konunni sem hann elskar, eða að gera það sem örlögin ætla honum og verða hetja sem bjargar ríkinu.

Í þessari mynd er sagan á bakvið goðsögnina sögð í sannkölluðum hasarmyndastíl.