Herzog um Ebert

 

Leikstjórinn Werner Herzog og kvikmyndagagnrýnandinn og fræðingurinn Rogert Ebert áttu sérstakt samband sín á milli sem virðist hafa byggst á aðdáun í báðar áttir og sameiginlegri ást á kvikmyndaforminu. Ebert var gríðarlega afkastamikill rýnir og framlag hans til kvikmyndafræða er bæði viðamikið og djúpt. Að sama skapi er Herzog gríðarlega afkastamikill leikstjóri sem hefur haft mikil áhrif á kvikmyndalist síðustu áratuga og aldrei látið neitt hindra sín verkefni, sama hvað hefur bjátað á og sama hversu sárt hann hefur vantað pening. Herzog stal tökuvél til að taka sína fyrstu mynd, dröslaði skipi yfir fjall í Fitzcarraldo, ku hafa hótað að skjóta Klaus Kinski við tökur á Aguirre og lagði sjálfan sig (og tökulið) í hættu við að taka heimildamyndina La Soufrière undir eldfjalli sem var við það að gjósa, svo fáein afrek hans séu nefnd. Hann hefur ítrekað teygt á mörkum skáldskapar- og heimildaformsins og þegar hann lýsir sjálfum sér sem „hermanni kvikmyndalistarinnar“ er samlíkingin alls ekki fjarri lagi (þess má geta að Herzog sæmdi Ebert sama riddaraheiðri í þágu kvikmynda).

Ebert dáði kvikmyndagerð Herzogs og skrifaði mikið um myndir hans í gegnum árin. Herzog lét aðdáun sína á Ebert í ljós með því að tileinka honum hina stórkostlegu heimildamynd Encounters at the End of the World. Herzog og Ebert virðast hafa speglað sig hvor í öðrum á einhvern dularfullan hátt, skynjað sameiginlega ást á listinni sem þeir lifðu fyrir og gerðu að meira en bara ævistarfi. Fyrir skömmu tók Herzog þátt í spjalli í þætti Charlie Rose þar sem minning Roger Eberts var heiðruð, en eins og allir áhugamenn um kvikmyndir vita líklega lést gagnrýnandinn fyrr í mánuðinum sjötugur að aldri, eftir stranga baráttu við krabbamein. Þar lýsir Herzog félaga sínum sem „þjóðargersemi“ sem var mun meira en einungis gagnrýnandi. „Hann sóttist eftir uppljómun,“ segir Herzog, „einhverju sem nálgast sannleika í kvikmyndalistinni, og þar náðum við tengingu saman. Við höfðum alltaf á tilfinningunni að það væri eitthvað mun dýpra til staðar en bara kvikmyndir.“ Viðtalið er tæpar 20 mínútur og er fallegur virðingarvottur við einn áhrifamesta kvikmyndagagnrýnanda aldarinnar, sem var jafnframt gangandi fræðibók um kvikmyndalistina og söguna. Það má sjá í heild sinni hér að neðan.