Hlustaðu á „íslenska“ lagið úr Eurovision-myndinni frá Netflix

Glænýtt lag úr Eurovision-kvikmyndinni frá Will Ferrell hefur verið afhjúpað og ber hið kostulega heiti Volcano Man. Þykir ekki ólíklegt að þetta eigi að vera framlag Íslands til keppninnar í söguþræði myndarinnar, ef ekki eitt af fyrri framlögum okkar.

Íslendingar bíða eflaust margir hverjir spenntir eftir myndinni en það eru risarnir hjá Netflix sem framleiða Eurovision-myndina og er þetta fyrsta samstarfsverkefni grínarans við streymisveituna. Tökur fóru fram í fyrrasumar í London, Edinborg og við Húsavík.

Það kemur því fáum á óvart að fjöldi þekktra, íslenskra leikara kemur fram í myndinni, enda fjallar gamanmyndin í grunninn um Íslendinga sem eiga sér þann heita draum að taka þátt í söngvakeppninni stóru – og sigra hana!
Ekki liggur fyrir hvenær myndin verður frumsýnd en hún er framleidd af streymisveitunni Netflix.

Leikstjórinn David Dobkin situr við stjórvölinn en hann á meðal annars að baki kvikmyndirnar Wedding Crashers, Fred Klaus, Shanghai Knights og The Change-Up. Eins og sjá má hefur hann mikið sérhæft sig í gamanmyndum en Ferrell skrifar handritið að myndinni ásamt Andrew Steele. Þeir kumpánar hafa reglulega unnið saman síðan á dögum Ferrell hjá grínþættinum Saturday Night Live og skrifuðu saman myndina Casa de mi Padre. Adam McKay, leikstjóri Anchorman-myndanna, Step Brothers og The Big Short, er einn af helstu framleiðendum myndarinnar.

Með önnur hlutverk í Eurovision fara Dan Stevens (Downton Abbey), Natasia Demetriou (What We Do in the Shadows), Elina Alminas (Ex Machina) og Melissanthi Mahut. Söngkonan Demi Lovato fer einnig með hlutverk Íslendings í myndinni og fyrrverandi Bond-leikarinn Pierce Brosnan leikur föður Lars, sem í sögunni er sagður vera myndarlegasti karlmaður landsins.