Hop hoppar í efsta sætið í Bandaríkjunum

Páskakanínan í Hop stökk beint í fyrsta sæti bíóaðsóknarlistans í Bandaríkjum nú um helgina og þénaði 38,1 milljón Bandaríkjadali samkvæmt bráðabirgðatölum.
Hop er fjölskyldumynd með Russel Brand í aðalhlutverki, en hann talar fyrir páskakanínu sem lendir fyrir bíl og ökumaður bílsins tekur hana með sér heim. Kanínan reynist svo hinn versti gestur. Hop gekk mun betur í miðasölunni en sérfræðingar höfðu spáð, en talið var að 25 milljónir dala kæmu í hennar hlut um helgina.
Hop jafnaði frumsýningarmet ársins sem teiknimyndin Rango átti, en hún var frumsýnd fyrir mánuði síðan, og tók inn 38,1 milljón dala á frumsýningarhelgi.
Spennutryllir Jake Gyllenhaals, Source Code, lenti í öðru sæti um helgina, og þénaði 15,1 milljón Bandaríkjadala. Draugamyndin Insidious, varð síðan í þriðja sæti með 13,5 milljónir dala.

Í Source Code leikur Gyllenhaal yfirmann í hernum sem eltir uppi hryðjuverkamann með því að fara inn í huga hans þar sem hann er í lest sem er um það bil að verða sprengd í loft upp.
Í Insidious leika þau Patrick Wilson og Rose Byrne hjón með þrjú ung börn sem fara að finna fyrir skrýtnum öflum þegar þau flytja inn í nýtt hús.
Toppmynd síðustu helgar, Diary of a Wimpy Kid: Rodrick Rules, datt niður í fjórða sæti með 10,2 milljónir í aðgangseyri, og samanlagt hefur hún rakað inn 38, 4 milljónum dala.

Eins og segir í frétt AP þá, þrátt fyrir góða aðsókn, náði Hop ekki að lyfta bíóiðnaðinum í Hollywood upp úr þeirri aðsóknarlægð sem verið hefur síðan á síðari hluta síðasta árs.
Heildartekjur helgarinnar voru 125 milljónir dala, sem er 30% minni tekjur en á sömu helgi fyrir ári síðan en þá var stórmyndin Clash of the Titans frumsýnd og tók inn 61,2 milljónir dala.
Tekjur af aðsókn í bíó í Bandaríkjunum frá áramótum nema 2,3 milljörðum dala, sem er 20% lægra en á sama tíma fyrir ári, en þá var reyndar óvenju mikið af stórmyndum frumsýndar.