Horfði á Húsið á sléttunni

Georgia MacPhail er eitt af nýstirnum sumarsins í Hollywood eftir að hafa tryggt sér eftirsótt hlutverk Elizabeth Kittredge í vestranum Horizon: An American Saga Chapter 1.

Næm túlkun hennar er sögð ná tangarhaldi á áhorfendum en Kittredge er ung kona sem þarf að fullorðnast í skyndi til að vernda ástvini sína. Með henni leika þau goðsögnin Kevin Costner og breska leikkonan Sienna Miller, en MacPhail þykir stela senunni eins og Pop Culturalist greinir frá.

MacPhail segir í samtali við Pop Culturalist að það sem hafi heillað hana við handritið og kvikmyndina sem slíka sé að hún sé hluti af sögu sem margir þekki ekki. „Það er mjög mikilvægt að segja þessa sögu. Það var algjör heiður að fá tækifæri til að leika í myndinni, og ég vona að hún muni hafa áhrif á bíógesti. Þetta er mjög spennandi verkefni og persóna.“

Kittedge gengur í gegnum erfiðar raunir tilfinningalega og þarf að fullorðnast frekar hratt. Sem leikkona, hvernig fannstu réttu nálgunina fyrir hlutverkið?

Horizon: An American Saga - Chapter 1 (2024)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7
Rotten tomatoes einkunn 41%

Fimmtán ára saga landnáms í Bandaríkjunum fyrir og eftir borgarastríðið frá 1861 - 1865. Þetta var vegferð þrungin hættum, erfiðleikum og baráttu við óblíð náttúruöfl. Einnig koma við sögu samskipti og átök við frumbyggja landsins og miskunnarleysið sem sýnt var við að...

Ég þurfti að setja mig vel inn í tímabilið sem myndin gerist á, eða sjöunda áratug nítjándu aldarinnar. Ég horfði á fullt af þáttum af Húsinu á sléttunni til að skilja hvernig það var fyrir stelpu að standa út úr hópnum og vera öðruvísi. Ég æfði mig einnig í að sitja á hestbaki og dansa línudans, en allt þetta hjálpaði mér að tengjast persónunni.“

Mjög hjálplegt

Svo var þetta tekið upp á staðnum þar sem kvikmyndin á að gerast. Hversu mikilvægt var það til að tengjast persónunni betur ?

„Það var ákaflega hjálplegt því það er ólíkt að taka upp þar sem myndin á að gerast miðað við þegar tekið er upp í myndveri. Að vera þarna var mjög raunverulegt. Að horfa í kringum sig, ég hugsaði: „Vá, er ég virkilega hluti af þessu verkefni. Ég er komin djúpt inn í þennan heim.“

Þú leikur mest á móti Sienna Miller. Hvað lærðirðu af því að vinna með henni? Hvernig hafði leikur hennar áhrif á þig ?

„Ég lærði af henni að handritið er í raun bara leiðarvísir. Allir leikarar koma með sína eigin tilfinningalegu dýpt að persónunni sem þeir leika, sem eykur raunveruleikakenndina og dramað í kvikmyndinni. Það var mjög gaman að fylgjast með henni og læra af nálgun hennar.“

Kevin Costner leikstýrði kvikmyndinni og er einn handritshöfunda. Hvernig var að vinna með honum? Er öðruvísi þegar leikstjórinn hefur mikla reynslu af leik sjálfur eins og hann hefur?

Alvöru samstarf

„Það var frábært. Jú þetta er ólíkt því Kevin er líka leikari. Hann skildi vel að við værum með ákveðnar hugmyndir um persónurnar. Mér leið eins og þetta væri alvöru samstarf. Hann spurði okkur mikið á tökustað um atriðið, tilfinningar persónanna, og hvað leiddi til þeirrar stundar í sögunni sem við vorum á.“

Myndin fékk ellefu mínútna standandi lófaklapp á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Hvernig var að upplifa það og hvað heldurðu að áhorfendur læri af myndinni?

„Það var stórkostlegt. Að vera í Cannes og upplifa þetta var óraunverulegt. Líkt og ég sagði áður þá vona ég að áhorfendur skilji betur þetta tímabil og hvað gekk á þarna með því að horfa á myndina. Þetta er stór hluti af sögu Bandaríkjanna. Sagan er fallega harmræn og er eitthvað sem allir ættu að vita meira um.“

Þróast og þroskast

Nú kemur annar hluti myndarinnar í bíó síðar í sumar. Er eitthvað sem þú getur gefið upp varðandi persónu þína og framhaldið hjá henni?

„Í fyrstu kvikmyndinni eru hún hortug, bráðger og saklaus. En eftir því sem tíminn líður þá þróast hún og þroskast og verður sterk persóna sem þarf að vernda sjálfa sig og mömmu sína.“