Hugh Grant sér eftir því að hafa leikið í Nine Months

Breski sjarmörinn Hugh Grant segist sjá eftir því að hafa leikið í rómantísku gamanmyndinni Nine Months, sem var frumsýnd árið 1995, af því að hún var framleidd af 20th Century Fox, sem er í eigu fyrirtækis fjölmiðlamógúlsins Rupert Murdoch, News Corporation.

„Ég gerði eina mynd með þeim fyrir 16 árum síðan, en ég var barnalegur þá. Ég vissi ekki einu sinni þá hver átti fyrirtækið,“ segir hann í samtali við Entertainment Weekly.

Grant er einn af mörgu frægu fólki sem hefur íhugað að fara í mál við fyrirtækið News International (sem er breskur armur News Corp fyrirtækis Murdochs) fyrir að hafa brotist með ólöglegum hætti inn á talhólfið hans. Leikarinn er orðinn einn af mest áberandi baráttumönnum gegn Murdoch veldinu eftir að hann tók á laun upp ummæli fyrrum fréttamanns News of the World sem sagði að hleranir væru eðlilegur hluti af starfsemi blaðsins.

Útgáfu blaðsins var hætt í síðustu viku eftir að breska dagblaðið the Guardian sagði frá því að nokkrir blaðamenn á blaðinu hefðu hlerað síma nemans Milly Dowler sem var myrt.

Grant hefur einnig barist fyrir því að Félag fórnarlamba hlerana fái fjárhagsstuðning, en þetta félag berst fyrir því að dómsrannsókn verði gerð á starfsemi News International.

Nine Months, mynd Hugh Grants, er leikstýrt af Chris Columbus. Grant leikur þar barnasálfræðing sem verður að horfast í augu við hræðslu sína við að eignast sjálfur börn, þegar kærasta hans, sem leikin er að Julianne Moore, verður ófrísk.

Myndinni gekk ágætlega í bíó, en gagnrýnendur voru ekki mjög hrifnir.