Hvað segja Íslendingar um Eurovision-myndina?

Gamanmyndin Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga var frumsýnd á streymi Netflix síðastliðinn föstudag við miklar vinsældir og háværar undirtektir. Í augum almennings er hér á ferðinni ósköp formúlubundin Will Ferrell-grínmynd en þó er myndin í vissri sérstöðu hjá bæði aðdáendum söngvakeppninnar og ekki síður Íslendingum.

Myndin rauk beint á toppinn hjá Netflix á vinsældarlista Netflix, bæði hér og um allan heim, en hér er fjallað um Íslendinga frá Húsavík sem eiga sér þann heita draum að taka þátt í söngvakeppninni stóru – og sigra hana, hvernig sem úr því er leyst!

Lítið hefur bólað á dómum um myndina frá íslenskum fjölmiðlum en víða á samfélagsmiðlum hafa landsmenn kveðið sinn úrskurð og tekið þátt í umræðunni.


Í Facebook-hópnum Kvikmyndaáhugamenn hafa myndast líflegir umræðuþræðir um myndina og þegar á heildina er litið voru flestir í þeim þræði hæstánægðir með afraksturinn.

„Skrifin á myndinni voru yfir allt frekar slöpp, fannst mér, en þeir náðu alveg að fanga Eurovision-andann og tengdu Ísland mjög vel við hann. Þetta cast var fullkomið!,“ segir Alexander Þór Gunnarsson.

„Mér fannst þetta furðulegar hugmyndir um Íslendinga og eins og allir karlmenn væru síðhærðir og skeggjaðir! Annars hló ég vel og mikið að kjánalegheitunum fyrri hluta myndarinnar. Seinni hluta myndarinnar fannst mér eins og sagan gæti ekki ákveðið sig hvort hún væri að taka sig alvarlega eða hvort hún væri enn á kjánalínunni…“
segir Unnur Hlíf Rúnarsdóttir.

„Ég var alveg yfir mig hrifinn af þessari mynd og kannski pínu hreykinn og upphafinn yfir því að það sé verið að gera grín af okkur og júró. Hló og grét yfir þessu,“ segir Þórhallur Sigurðsson. 

„Fín skemmtun, gef henni 6/10. Rachel McAdams heldur myndinni uppi. Húmorinn var ágætur, hann var eins og ég var að búast af Will Farrell mynd,“ segir Hákon Einar Júlíusson.

„Get hana ekki.. þoli ekki Will Ferrell.. leiðilegasti “ grínleikari “ EVER!!“ segir Elva Björnsdóttir.

„Fær 7 frà mér. Hún hefði fengið 6 ef ég væri ekki Íslendingur. Àgæt afþreying, hló nokkrum sinnum,“ segir Benni Sigmund. 

„Ég fíla Will Ferrell alls ekki og hafði því ekki miklar væntingar en mér fannst hún svo bara stórskemmtileg!,“ segir Erla Baldursdóttir.


„Þetta er eitt af fáum skipt­um sem ég fundið sterk­ar til­finn­ing­ar á meðan ég horfði á kvik­mynd. Ég og kær­ast­an mín grét­um nokkr­um sinn­um og hlóg­um mikið.

Fullt af fólki sem er ekki Íslend­ing­ar hef­ur gagn­rýnt kvik­mynd­ina og sagt hana vand­ræðal­ega fyr­ir Íslend­inga og hún láti okk­ur líta út fyr­ir að vera heimsk. Satt best að segja þá náðu þau okk­ur frek­ar vel,“ skrif­ar Kol­beinn Helgi, not­andi á IMDb, í um­sögn sinni um kvik­mynd­ina og gefur henni 10 í ein­kunn.


Íslenski leik­ar­inn Jó­hann­es Hauk­ur Jó­hann­es­son, sem fer með hlut­verk í kvik­mynd­inni, seg­ir að lagið sé gjöf til Hús­vík­inga og að þeir eigi að syngja lagið óspart. 


Á vefnum Fréttanetið skrifar Lilja Katrín Gunnarsdóttir dóm og segir myndina vera tilgangslausa en veiti þó Íslendingum Eurovision-gleðina sem þeir voru rændir.

[Myndin…] er áhorfsins virði, þó hún sé hvorki fugl né fiskur. Þó hún skarti sömu bröndurum og við höfum heyrt í að minnsta kosti áratug. Þó að Íslendingar séu sýndir sem sveitalubbar sem tala við álfa og drekka sig fulla á hverju kvöldi. Því þegar á öllu er á botninn hvolft veitir hún gleði, ósvikna Eurovision-gleði á tímum þar sem keppnin sem við hefðum unnið var ekki haldin. Það var enginn í heiminum að biðja um þessa mynd en samt er hún kærkomin gjöf til Íslendinga í miðjum heimsfaraldri.

Smelltu hér til að lesa dóm Kvikmyndir.is um Eurovision-myndina.