Hvalfjörður verðlaunuð í Cannes

Íslenska stuttmyndin Hvalfjörður fékk í gær sérstök dómnefndarverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Cannes í Frakklandi. Í frétt mbl.is segir að myndin hafi fengið afar jákvæð viðbrögð og jafnvel hafi verið búist við því að hún hreppti Gullpálmann, aðalverðlaun hátíðarinnar.

Hval.nr1

Alls voru 3.500 stuttmyndir, frá 132 löndum, sendar inn í keppnina. Af þeim voru níu valdar áfram í aðalkeppnina, þar sem Hvalfjörður var ein útvalinna. Guðmundur Arnar Guðmundsson leikstýrði myndinni, skrifaði handrit og var einn framleiðanda. Aðrir meðframleiðendur eru Sagafilm, Danirnir Darin Mailand-Mercado og Jacob Oliver Krarup ásamt Rúnari Rúnarssyni.

Í myndinni fá áhorfendur að skyggnast inn í líf tveggja bræðra sem búa ásamt foreldrum sínum á litlum sveitabæ. Kynnast áhorfendur heimi þeirra frá sjónarhorni yngri bróðurins og fylgja honum í gegnum örlagaríkt tímabil sem markar þáttaskil í lífi fjölskyldunnar.

Í samtali við mbl.is segir Anton Máni að aðstandendur myndarinnar séu afskaplega þakklátir fyrir verðlaunin og reikna með að hún fari í kjölfarið til sýninga á fleiri kvikmyndahátíðum. „Þetta opnar margar dyr og er ákveðinn gæðastimpill,“ segir Anton Máni í samtalinu við mbl.is