Illir andar úr The Ring og The Grudge sameinast

Snemma á fyrsta áratug þessarar aldar voru blendingsmyndir nokkuð vinsælar, myndir eins og Freddy vs. Jason, Alien vs Predator og fleiri, þar sem þekktar hrollvekjupersónur eða geimverur öttu kappi.

ring

Nú gæti verið hafin ný bylgja slíkra mynda og er skemmst að minnast Batman v Superman: Dawn of Justice, þó þar sé ekki nákvæmlega sami hluturinn á ferð þar sem myndin er einskonar upptaktur að Justice League myndheiminum.

Ný hrollvekja af þessu tagi lítur dagsins ljós nú í sumar, en þar er um að ræða japönsku hrollvekjuna Sadoki vs. Kayoki, en þar mætast á hvíta tjaldinu illir andar úr tveimur þekktum hrollvekjum, myndunum The Ring og The Grudge.

Ný stikla úr myndinni var að detta í hús, sem hægt að skoða hér að neðan:

Myndin á uppruna sinn í 1. apríl – brandara sem fór á flug á netinu, en japönsku kvikmyndaverin Kadokawa og NBC Universal Japan, sáu að þarna væri tækifæri til að gera bíómynd, og úr varð Sadoki vs. Kayoko þar sem hinir illu andar úr The Ring og The Grudge berjast um draugslega yfirburði.

Myndin verður frumsýnd í Japan þann 18. júní nk. en óvíst er með frekari dreifingu utan Japans að svo stöddu

The Ring og The Grudge voru aðalmyndirnar í japanska hrollvekjufárinu sem gekk yfir heiminn á sínum tíma, og The Ring, sem hét Ringu á frummálinu, var endurgerð í Bandaríkjunum við miklar vinsældir.

Með helstu hlutverk fara Mizuki Yamamoto og Yuri Kurahashi. Kôji Shiraishi leikstýrir.

Í Bandaríkjunum er von á framhaldsmynd The Ring, Rings, þann 28. október nk.

Ný endurerð á The Grudge, er einnig á leiðinni í Bandaríkjunum, með Sam Raimi sem framleiðanda.