Iron Man 3 gæti orðið önnur aðsóknarmest í sögunni

Iron Man 3 hefur slegið hressilega í gegn á Íslandi síðan hún var heimsfrumsýnd hér um síðustu helgi, enda er myndin þrælgóð skemmtun og hvergi slegið af.
Það sama virðist vera að endurtaka sig í Bandaríkjunum, en Bandaríkjamenn flykkjast nú á myndina sem var frumsýnd þar í landi í gær.

Samkvæmt fyrstu tölum sem The Hollywood Reporter birtir á vefsíðu sinni um aðsókn gærdagsins, föstudagsins 3. maí, þá voru tekjur myndarinnar 68,3 milljónir Bandaríkjadala sem gefur vonir um 165 – 170 milljóna dala tekjur yfir alla helgina sem er í línu við það sem aðstandendur bjuggust við.

Þetta þýðir að myndin gæti farið nálægt því að ryðja Harry Potter and the Deathly Hallows Part 2 úr öðru sætinu á listanum yfir bestu frumsýningarhelgar allra tíma í Bandaríkjunum. Myndin mun ekki, miðað við þessar fyrstu tölur, ná að ýta The Avengers úr toppsæti þess lista, en The Avengers er mest sótta mynd á frumsýningarhelgi allra tíma með 207,4  milljónir dala í aðsóknartekjur á frumsýningarhelgi.

Í grein The Hollywood Reporter segir að myndin sé þó á meiri siglingu en The Avengers ef litið er til tekna um allan heim, en The Avengers þénaði alls 1,5 milljarð dala í bíó á heimsvísu, og miðað við þessar góðu viðtökur heimsbyggðarinnar, er möguleiki á að Iron Man 3 slái það met, en horfur eru á að tekjur af myndinni á heimsvísu verði komnar upp í 600 milljónir dala eftir þessa helgi.