Köngulóarmaðurinn sterkur á toppnum fjórðu vikuna í röð

Fjórðu vikuna í röð er Spider-Man: No Way Home vinsælasta kvikmyndin á Íslandi. Það kemur reyndar ekki mikið á óvart miðað við þær góðu viðtökur sem myndin hefur fengið bæði hjá gagnrýnendum og almenningi.

Doc Oc í ham með þreifarana úti.

Eftir sýningar síðustu helgar voru tekjur myndarinnar samtals komnar upp í sjötíu og sjö milljónir króna og hvorki fleiri né færri en fimmtíu og eitt þúsund manns höfðu barið myndina augum.

Hin stórskemmtilega The King´s Man var frumsýnd um síðustu helgi, en náði ekki að velta Köngulónni úr topp sætinu. King´s Man, sem segir forsögu King´s Man þjónustunnar, nældi sér í annað sæti íslenska bíóaðsóknarlistans með um 4,4 milljónir króna í tekjur, en rúmlega 2.600 manns fóru að sjá myndina í bíó um helgina.

Önnur ný mynd sem fengið hefur firnagóðar viðtökur gagnrýnenda og áhorfenda, The Lost Daughter, fór beint í áttunda sæti listans, með 227 þúsund krónur í greiddan aðgangseyri.

Það verður spennandi að sjá hvernig þessar myndir og aðrar munu standa sig nú um helgina, og hvort að nýjar og spennandi myndir í bíó, Scream og Skrímslafjölskyldan 2, muni velja þeim undir uggum.

Sjáðu bíóaðsóknarlistann í heild sinni hér fyrir neðan: