Krúsar um loftin blá

Ný opinber stikla fyrir Tom Cruise myndina Top Gun: Maverick kom loksins út í gær, en ný Tom Cruise mynd er alltaf eitthvað sem vekur spennu og eftirvæntingu hjá fólki.

Tökum á myndinni lauk árið 2019 en vegna faraldursins hefur dregist að frumsýna myndina. En nú nálgast frumsýningardagurinn óðfluga, sem er 25. maí nk.

Margir ættu að kannast við forverann, Top Gun, sem sló í gegn á sínum tíma.

Opinber söguþráður er þessi:

Eftir að hafa verið fremsti flugmaður bandaríska sjóhersins í meira en 30 ár er Pete „Maverick“ Mitchell (Tom Cruise) enn á sinni réttu hillu. Nú sem æfingaflugmaður sem forðast það eins og heitan eldinn að verða hækkaður um tign. Það myndi þýða að hann þyrfti að segja skilið við loftin blá og leggja orrustuflugvélinni.

Þegar Maverick er fenginn til þess að þjálfa úrvalalið úr Top Gun akademíunni fyrir sérhæft verkefni sem enginn flugmaður hefur unnið hvorki fyrr né síðar, hittir hann fyrir Bradley Bradshaw (Miles Teller) sem er sonur hins sáluga Nick Bradshaw eða „Goose“, besta vinar Maverick úr akademíunni.

Þá tekur við atburðarrás þar sem Maverick þarf að kljást við drauga fortíðar um leið og hann þarf spá fyrir um framtíðina sem virðist ansi stormasöm.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan og splunkunýtt plakat sömuleiðis: