Leikstjóri Svartur á leik gerir Úlfshjarta

Framleiðslufyrirtækið Filmus keypti nýverið kvikmyndaréttinn að bókinni Úlfshjarta eftir Stefán Mána. Frá þessu er sagt í Fréttablaðinu í dag.

Óskar Þór Axelsson mun leikstýra myndinni og skrifa handritið að henni en hann leikstýrði síðast myndinni Svartur á leik sem var byggð á samnefndri skáldsögu Stefáns Mána.

Í blaðinu segir Stefán Máni að mikið traust ríki á milli sín og Óskars Þórs enda þekkist þeir orðið vel. „Hann sannaði sig algjörlega síðast og það er frábært að fá tækifæri til að vinna með honum og framleiðandanum aftur. Þetta snýst mikið um traust því héðan í frá stjórna ég engu. Ég fylgist þó með gangi mála, eins og ég gerði með Svartur á leik, og verð þriðja augað,“ segir Stefán Máni í Fréttablaðinu.

Úlfshjarta er unglingasaga og segir frá Alexander sem er hættur í menntaskóla og vinnur við útkeyrslu. Hann á í sambandi við Védísi og er tilhugsunin um hana það eina sem gerir vinnudagana bærilega. Fljótlega fer Alexander svo að finna fyrir ýmsum breytingum og í ljós kemur að hann er að breytast í varúlf.

Í ljósi söguþráðar bókarinnar má ætla að kvikmyndin verði full af tæknibrellum, en Stefán Máni telur það ekki víst. „Ef ég þekki Óskar rétt þá verður það ekki aðalatriðið heldur verður áherslan á persónurnar,“ segir Stefán Máni að lokum í frétt Fréttablaðsins.